Erlent

Vinna að því að fjarlægja mótmælendur af Ambassador brúnni

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ekkert lát hefur verið á mótmælunum í dag. 
Ekkert lát hefur verið á mótmælunum í dag.  Getty/Cole Burston

Lögreglan í Ontario hefur nú hafist handa við að koma fólki frá sem hefur undanfarna viku mótmælt á Ambassador brúnni, sem tengir Ontario við Bandaríkin í gegnum Detroit borg.

Mótmælin eru hluti af Frelsislestar-mótmælunum svokölluðu sem hafa verið í gangi víðs vegar um Kanada en þau hafa staðið yfir í rúmar tvær vikur. Upprunalega var um að ræða mótmæli vörubílsstjóra vegna bólusetningarskyldu en síðar meir tóku þau almennt að snúa að hvers kyns takmörkunum vegna Covid. 

Dómstóll úrskurðaði í gær að mótmælunum á brúnni yrði hætt en um er að ræða mikilvæga flutningsleið og hafa atvinnugreinasamtök lýst því yfir að mótmælin séu að valda þeim gríðarlegu tjóni.

Úrskurðurinn tók gildi klukkan 19 að staðartíma í gær og gaf lögregla skömmu síðar út tilkynningu um að allir þeir sem enn væru á staðnum gætu átt yfir höfði sér ákæru. Í morgun virtust mótmælin vera að tvístrast en fleiri tóku að mæta þegar líða fór á daginn.

Að því er kemur fram í frétt BBC eru lögreglumenn nú byrjaðir að vísa fólki af brúnni en enn eru töluvert margir á staðnum, að því er kemur fram í frétt CTV um málið.

Drew Dilkens, bæjarstjóri Windsor í Kanada, segist búast við því að málið verði leyst um helgina en hann segir koma til greina að lögregla beiti valdi til að koma fólki frá.

Mótmælin fara þó einnig fram víðar en við landamæri Kanada og Bandaríkjanna í Ottawa er búist við fleiri mæti þegar líða fer á daginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×