Kosningin er rafræn en einnig hefur verið hægt að greiða atkvæði á skrifstofum Eflingar í Guðrúnartúni í Reykjavík og Breiðamörk í Hveragerði. Keyra þarf kjörkassann frá Hveragerði eftir að kosningu lýkur, en talið verður í Reykjavík.
Alls eru þrír listar í framboði; A-listi uppstillinganefndar með Ólöfu Helgu Adolfsdóttur sem formannsefni, B-listi með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í forsvari og C-listi Guðmundar Jónatans Baldurssonar.
Halldór segir í samtali við fréttastofu að ef hann eigi að vera bjartsýnn þá verði hægt að kynna niðurstöðu stjórnarkjörsins um klukkan 21:30. „Það ræðst svolítið af kjörkassanum í Hveragerði. Ef Hellisheiði verður lokuð er ekki útilokað að þetta dragist til morguns, en við vonum að sjálfsögðu það besta.“
Halldór segir að kjörstjórn hafi tekið ákvörðun um að greina ekki frá kjörsókn á meðan kosning stendur enn yfir, heldur verði upplýsingar um hana teknar saman þegar niðurstaða kjörsins verður kynnt.