Hin átján ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék sinn sjötta A-landsleik í nótt og enn á ný tókst þessum efnilega markverði að halda marki sínu hreinu í íslenska landsliðsbúningnum.
Íslensku stelpurnar unnu þá 1-0 sigur á Nýja Sjálandi í fyrsta leik sínum á SheBelieves Cup. Cecilía Rán Rúnarsdóttir þurfti ekki að taka á stóra sínum í leiknum en greip vel inn í þegar þurfti. Samkvæmt tölfræði bandaríska knattspyrnusambandsins þá varði hún tvö skot í leiknum.
Cecilía Rán hefur nú haldið markinu hreinu í fjórum síðustu landsleikjum sínum og það eru 378 mínútur síðan skorað var hjá henni í A-landsleik. Það eru því meira en sex klukkutímar síðan mótherjar stelpnanna okkar fundu leið framhjá henni.
Cecilía hefur spilað sex landsleiki og aðeins fengið á sig eitt mark í þeim. Það mark skoraði Ítalinn Arianna Caruso á 72. mínútu í 1-0 sigri á Íslandi í apríl á síðasta ári. Caruso er leikmaður ítalska stórliðsins Juventus.
Landsleikurinn í nótt var fyrsti landsleikur Cecilíu síðan hún gekk til liðs við þýska stórliðið Bayern München en hún er komin þangað á láni frá Everton. Cecilía var áður í láni hjá sænska félaginu KIF Örebro.
Cecilía hélt marki sínu hreinu í fyrsta landsleiknum sínum sem var 4. mars 2020 á móti Norður Írlandi. Landsleikurinn á móti Ítalíu í apríl 2021 var hennar annar landsleikur.
Hún hefur síðan haldið markinu í fjórum leikjum eða í 2-0 sigri á Írlandi í júní 2021, í 5-0 sigri á Kýpur í október 2021, í 2-0 sigrinum á Japan í nóvember 2021 og loks í 1-0 sigri á Nýja Sjálandi í nótt.
- Landsleikir Cecilíu Rán Rúnarsdóttur:
- 4. mars 2020: Hélt hreinu í 1-0 sigri á Norður Írlandi
- 10. apríl 2021: Fékk á sig 1 mark í 0-1 tapi á móti Írlandi
- 15. júní 2021: Hélt hreinu í 2-0 sigri á Írlandi
- 26. október 2021: Hélt hreinu í 4-0 sigri á Kýpur
- 25. nóvember 2021: Hélt hreinu í 2-0 sigri á Japan
- 18. febrúar 2022: Hélt hreinu í 1-0 sigri á Nýja Sjálandi
- Samtals:
- 6 landsleikir
- 5 sigurleikir
- 1 mark á sig
- 5 sinnum haldið markinu hreinu