Innlent

Akrahreppur og Skagafjörður gætu orðið að einu um helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sauðárkrókur er fjölmennasta plássið í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Sauðárkrókur er fjölmennasta plássið í Sveitarfélaginu Skagafirði. Vísir/Jóhann K

Kosið verður um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar á morgun, laugardaginn 19. febrúar. Samþykki meirihluta kjósenda beggja sveitarfélaga þarf til að sameiningin gangi eftir.

Alls eru 3.092 á kjörskrá, 1.565 karlar og 1.527 konur. Í Sveitarfélaginu Skagafirði eru 2.936 á kjörskrá, 1.489 karlar og 1.474 konur. Í Akrahreppi eru 156 á kjörskrá, 76 karlar og 80 konur.

Samstarfsnefnd sem sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipuðu til að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna skilaði áliti sínu þar sem nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að kostir séu fleiri en gallar, og hvetur til sameiningar.

Í tilkynningu frá sameiningarnefnd segir að sameiningu fylgi áskoranir sem nefndin telji að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.

„Að mati nefndarinnar mun sameining sveitarfélaganna hafa í för með sér aukna fjárfestingagetu og stuðla að hraðari uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð. Sveitarfélag allra Skagfirðinga muni hafa sterkari rödd við að koma hagsmunum íbúa og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri við stjórnvöld. Öflugt sveitarfélag með einfalda og skilvirka stjórnsýslu, sem leitar eftir sjónarmiðum íbúa með skipulögðum hætti getur bætt búsetuskilyrði og veitt framúrskarandi þjónustu til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×