Þrír Íslendingar byrjuðu á vellinum í kvöld, þeir Atli Barkarson og Kristófer Ingi Kristinsson voru í byrjunarliði SønderjyskE og Jón Dagur Þorsteinsson í liði AGF. Mikael Anderson kom inn á sem varamaður fyrir AGF þegar rúmur hálftími var til leiksloka.
Það var hins vegar Peter Christiansen sem kom heimamönnum í SønderjyskE yfir strax á annarri mínútu, áður en Stefan Gartenmann tvöfaldaði forystu heimamanna eftir tæplega 15 mínútna leik.
Patrick Mortensen minnkaði muninn fyrir AGF á 34. mínútu og staðan var því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Peter Christiansen hélt að hann hefði komið heimamönnum aftur í tveggja marka forystu á 48. mínútu, en mark hans var hins vegar dæmt af þar sem að hann reyndist brotlegur í aðdraganda marksins.
Það var svo Jón Dagur Þorsteinsson sem jafnaði metin fyrir gestina eftir tæplega klukkutíma leik, áður en Patrick Mortensen skoraði annað mark sitt og þriðja mark AGF á þriðju mínútu uppbótartíma og tryggði liðinu þar með 3-2 sigur.
AGF situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með 24 stig eftir 18 leiki, 14 stigum meira en SønderjyskE sem situr í næst neðsta sæti.