Erlent

Samstarfsmaður Epstein fannst látinn í fangaklefa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jean-Luc Brunel hafði verið í haldi lögreglu í þessu fangelsi í París.
Jean-Luc Brunel hafði verið í haldi lögreglu í þessu fangelsi í París. EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Franski tískumógúllinn Jean-Luc Brunel fannst látinn í fangaklefa sínum í París í gær. Brunel var náinn vinur bandaríska auðkýfingins og kynferðsibrotamannsins Jeffrey Epstein. Hafði Brunel verið handtekinn í tengslum við rannsókn franskra yfirvalda á kynferðisbrotum Epstein.

Brunel, sem var 76 ára að aldri,  fannst í fangaklefa sínum í fyrrinótt. Hafði honum verið haldið þar í um eitt ár í tengslum við rannsókn franskra yfirvalda, en hann var grunaður um kynferðisbrot. Hann hafði neitað sök.

Brunel var einn valdamesti maðurinn í franska tískuheiminum á sínum tíma en hann átti umboðsskrifstofur í Frakklandi og í Bandaríkjunum. Hann var handtekinn á Charles de Gaulle flugvellinum í desember árið 2020 er hann var á leið til Senegal.

Epstein var handtekinn í júlí 2019, sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída. Hann neitaði sök en svipti sig svo lífi í fangaklefa á Manhattan 10. ágúst, sama ár. Fjöldi kvenna hefur sakað hann um að hafa brotið á sér í Bandaríkjunum. Hann er meðal annars sagður hafa greitt unglingsstúlkum sem hann misnotaði til þess að koma sér í kynni við fleiri ungar stúlkur.

Hafði Brunel verið einn þeirra sem var ásakaður að hafa útvegað Epstein ólögráða einstaklingum. Brunel var einn nánasti vinur Epstein og einn valdamesti maðurinn í franska tískuheiminum.

Saksóknarar í Frakklandi beindu sjónum sínum meðal annars að Brunel vegna tengsla hans við Epstein. Hann flaug stundum í einkaflugvél Epstein og heimsótti hann í fangelsi á Flórída þegar hann var sakfelldur fyrir vægari brot þar árið 2008. Ein kvennanna sem sakaði Epstein um misnotkun þegar hún var táningur sagði að að Brunel og fleiri menn hafi einnig misnotað hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×