Erlent

Texas í hart gegn foreldrum transbarna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Greg Abbott talar hér til stuðningsmanna sinna á framboðsfundi fyrr í þessum mánuði en ríkisstjórakosningar fara fram í Texas í nóvember.
Greg Abbott talar hér til stuðningsmanna sinna á framboðsfundi fyrr í þessum mánuði en ríkisstjórakosningar fara fram í Texas í nóvember. Vísir/AP

Ríkisstjóri Texas hefur fyrirskipað starfsmönnum ríkisins að rannsaka mál sem tengjast réttindum og kynleiðréttingaferli transbarna. Texas gæti fetað í fótspor ríkja sem bannað hafa kynleiðréttingar barna.

Í bréfi sem ríkisstjórinn, Greg Abbott, sendi skrifstofu fjölskyldu- og barnaverndar í Texas um helgina fylgdi hann eftir yfirlýsingu ríkissaksóknara Texas, Ken Paxton, sem hélt því fram að hlutar ferlisins í kynleiðréttingu barna væru ofbeldi gegn börnum.  Báðir eru þeir Abbott og Paxton Repúblikanar.

Í bréfinu segir Abbott að skurðaðgerðir og hormónameðferðir vegna kynleiðréttingar gætu flokkast sem ofbeldi gegn börnum samkvæmt lögum Texasríkis. Þá tók hann fram að barnaverndarskrifstofan bæri ábyrgð á því að vernda börn gegn ofbeldi og bætti við á Twitter að stofnunin ætti að ákæra tilfelli þar sem grunur væri uppi um slíkt. 

Þá sagði Abbott að læknum, hjúkrunarfræðingum og kennurum bæri skylda til að tilkynna ofbeldi gagnvart börnum og að hægt væri að ákæra þá sem ekki framfylgdu þeim skyldum.

Þetta er nýjasta útspil hans í þeirri vegferð að takmarka réttindi transbarna en í október skrifaði Abbott undir lög sem banna transstúlkum að keppa í kvennaflokki í íþróttum.

Fleiri ríki Bandaríkjanna hafa fetað svipaðar slóðir og Texas. Í apríl voru samþykkt lög sem banna kynleiðréttingar barna og fyrr í þessum mánuði skrifaði ríkisstjóri Suður-Dakóta undir lög sem banna transstúlkum að spila í kvennaflokki íþrótta alveg út háskóla.

Demókratar hafa brugðist við þessum yfirlýsingum Abbott. Saksóknari Harris sýslu, Christian Menefee gaf út yfirlýsingu þar sem Abbott og Paxton væru að hunsa lækna og vísvitandi að mistúlka lög.

Skrifstofa saksóknara í Travis sýslu þar sem höfuðborg Texas, Austin, er staðsett segist ekki ætla að framfylgja fyrirmælum Abbott. Delia Garza, saksóknari Travis sýslu, segir að forystumenn Repúblikana í ríkinu væru að reyna að gera ástríka og góða foreldra að glæpamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×