Fótbolti

Mættur á vígvöllinn fimm mánuðum eftir að hafa unnið Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það er skammt stórra högga á milli hjá Yuriy Vernydub. Í lok september fagnaði hann fræknum sigri á Real Madrid en nú er hann mættur í úkraínska herinn.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Yuriy Vernydub. Í lok september fagnaði hann fræknum sigri á Real Madrid en nú er hann mættur í úkraínska herinn.

Aðeins fimm mánuðum eftir að hafa stýrt Sheriff Tiraspol til sigurs á Real Madrid í Meistaradeild Evrópu er Yuriy Vernydub mættur út á vígvöllinn til að hjálpa úkraínska hernum að verjast innrás Rússa í landið.

Vernydub og leikmennirnir hans komu öllum á óvart þegar þeir sóttu sigur á Santiago Bernabéu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðasta haust. Sebastien Thill skoraði sigurmark moldóvska liðsins þegar mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Sheriff vann fyrstu tvo leiki sína í riðlakeppninni en tapaði næstu fjórum og komst ekki áfram.

Vernydub er Úkraínamaður og ástandið í heimalandi hans hefur verið honum ofarlega í huga undanfarnar vikur.

Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu á fimmtudaginn rann Vernydub svo blóðið til skyldunnar og gekk í úkraínska herinn. Tæpu hálfu ári eftir stærstu stund þjálfaraferilsins var hann því mættur í fullum herklæðum út á vígvöllinn.

Vernydub, sem er 56 ára, hefur stýrt Sheriff frá 2020. Hann gerði liðið að moldóvskum meisturum í fyrra. Áður en Vernydub fór til Moldóvu stýrði hann Zorya Luhansk í heimalandinu og Shakhtyor Soligorsk í Hvíta-Rússlandi.


Tengdar fréttir

Vaktin: 64 kíló­metra löng rúss­nesk her­gagna­lest stefnir á Kænu­garð

Sjötti dagur innrásar Rússa í Úkraínu er hafinn. Rússar herja enn á höfuðborgina Kænugarð og á gervihnattamyndum hefur sést til 64 kílómetra langrar rússneskrar hergagnalestar norður af Kænugarði sem stefnir í suðurátt. Fréttir hafa sömuleiðis borist af frekari  átökum og sprengingum í fjölda annarra bæja og borga í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×