„Það er mikil óvissa varðandi framtíðina,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International. „Úkraína hefur verið óvenju mikilvægur markaður fyrir frosnar uppsjávarafurðir eftir að lokað var á sölu til Rússlands. Þarna búa um 43 milljónir manna og hefð er fyrir þessu fiskmeti.“
Áður en Rússland lagði innflutningsbann á matvæli, meðal annars frá Íslandi vegna stuðnings við refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014, þá var það einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir.
Vöruútflutningur til Rússlands nam um 4,7 milljörðum króna á öllu síðasta ári en til samanburðar voru útflutningsverðmætin um 32 milljarðar króna á árinu 2014. Eftir hrun í útflutningi sjávarafurða hefur stærsti einstaki liðurinn verið sala á notuðum skipum úr íslenska flotanum en restina má að má að mestu rekja til kaupa rússneskra útgerða á tæknibúnaði og aðföngum frá íslenskum fyrirtækjum.
Útflutningur sjávarafurða hefur að töluverðu leyti færst til Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Vöruútflutningur til Hvíta-Rússlands – nær einungis sjávarafurðir – fjórfaldaðist þannig úr 1 milljarði árið 2015 upp í rúmlega 4 milljarða á síðasta ári. Hvað Úkraínu varðar jukust útflutningsverðmæti úr 2,3 milljörðum upp í 6,6 milljarða á sama tímabili.
Hagtölur um beinan útflutning til Úkraínu gefa þó ekki alveg rétta mynd af umfangi viðskiptanna. Á hverju ári selja íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mikið magn til Litáen en verulegur hluti þess hefur aðeins viðkomu í frystigeymslu þar í landi og er síðan áframseldur til Austur-Evrópu, einkum Úkraínu.
Áætlað er að hátt í helmingur sjávarafurða sem fluttar eru út til Litáen endi að lokum í Úkraínu. Ef það er tekið með í reikninginn má ætla að útflutningur til Úkraínu – nær eingöngu uppsjávarafurðir eins og tilfelli Hvíta-Rússlands – hafi á síðasta ári numið allt að 10 milljörðum króna. En þessir viðskiptahagsmunir eru í uppnámi eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Síldarvinnslan sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kom að útgerðin væri með útistandandi viðskiptakröfur í Úkraínu upp á 1,1 milljarð króna og hefði áformað að selja töluvert magn af loðnu inn á markaðinn áður en fréttir bárust af innrás Rússlands.
Sala til Úkraínu, sem er eitt mikilvægasta viðskiptaland Síldarvinnslunnar, hefur numið um þriðjungi af útflutningi frosinna uppsjávarafurða og var hlutfallið hærra á árunum 2019 og 2020 þegar loðnubrestur var.
Á uppgjörsfundi Brims í síðustu viku kom fram að útgerðin væri með „tiltölulegar litlar stöður“ ef horft væri til Úkraínu og Hvíta-Rússlands. Sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, að útistandandi viðskiptakröfur fyrirtækisins í þeim löndum væru samtals um 700 til 1.150 milljónir íslenskra króna.
Þegar Kauphöllin lokaði í gær hafði Síldarvinnslan lækkað um rúm 5 prósent, mest allra félaga, og Brim um 3 prósent.
Bjarni hjá Iceland Seafood segir að innrás Rússa hafi takmörkuð áhrif á fyrirtækið.
„Að sjálfsögðu er hugur okkar hjá fólkinu í Úkraínu sem tekst á við þessar hörmulegu aðstæður. Við hjá Iceland Seafood eigum eitthvað undir í Úkraínu en ekki af þeirri stærðargráðu að það kalli á sérstaka Kauphallartilkynningu. Við erum heldur ekki með birgðir í þessum vöruflokkum,“ segir hann.
Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að fyrirtækið sé ekki með neinar útistandandi kröfur í Úkraínu. Loðnuvinnslan hafi ekki verið stór á þessum markaði upp á síðkastið og sala hafi jafnan verið staðgreidd. Aftur á móti þurfi fyrirtækið nú að finna nýja kaupendur að birgðum sem voru eyrnamerktar Úkraínu.
Þá segir Þorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju, að staða útgerðarinnar gagnvart Úkraínu sé „sambærileg“ því sem lýst var í tilkynningu Síldarvinnslunnar.