Íslenski boltinn

Andrés Escobar dæmdur fyrir kynferðisbrot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrés Escobar í leik með Leikni R. síðasta sumar.
Andrés Escobar í leik með Leikni R. síðasta sumar. vísir/Hulda Margrét

Kólumbíski fótboltamaðurinn Andrés „Manga“ Escobar, sem lék með Leikni R. á síðasta tímabili var dæmdur fyrir kynferðisbrot í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Escobar kom til Leiknis fyrir síðasta tímabil og lék átján deildarleiki og skoraði tvö mörk fyrir Breiðholtsliðið. Hann yfirgaf það eftir tímabilið.

Escobar er hins vegar enn hér á landi þar sem hann er í farbanni. Hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar síðastliðinn. Dómnum var áfrýjað til Landsréttar og þess er beðið að málið verði tekið fyrir þar.

Escobar er í farbanni hér á landi þar til niðurstaða kemst í mál hans. Farbannið gildir til 1. september á þessu ári að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins.

Aðfaranótt sunnudagsins 19. september á síðasta ári á Escobar að hafa brotið kynferðislega á konu á heimili sínu. Í dómnum segir að hann hafi haft samræði við hana án hennar samþykkis.

Escobar, sem er þrítugur, hefur farið víða á ferlinum. Hann var meðal annars um tíma á mála hjá úkraínska stórliðinu Dynamo Kiev.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur gegn Escobar má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×