Erlent

„Fólk drekkur úr pollunum á götunni“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Börn heilbrigðisstarfsmanna bíða foreldra sinna á spítala í Maríupól.
Börn heilbrigðisstarfsmanna bíða foreldra sinna á spítala í Maríupól. AP/Evgeniy Maloletka

„Það er ekkert rafmagn, enginn hiti, ekkert símasamband. Þetta er algjör hryllingur,“ hefur New York Times eftir ráðgjafa borgarstjórans í Maríupól um ástandið í borginni.

„Fólk drekkur úr pollunum á götunni.“

Petro Andryushcenko segir stöðugar árásir Rússa hafa gert hluta borgarinnar óhæfan til að búa í. Ekki hafi tekist að telja látna né bjarga særðum.

„Þetta bara stoppar ekki,“ segir hann. „Allir sem reyna að fara út hætta lífi sínu. Þess vegna getur borgarstjórinn ekki óskað þess af fólki; það væri eins og að senda það í opinn dauðann.“

„Árásirnar eru stöðugar og handahófskenndar,“ segir Diana Berg, einn íbúa Maríupól. „Þegar þú ert úti á götu getur þú hvenær sem er átt það á hættu að eldflaug lendi hjá þér.“

Berg sagði fólk engu að síður fara út til að kveikja elda til að halda á sér hita.

Tilraunir til að koma á vopnahléi og koma íbúum úr borginni fóru út um þúfur í gær. Úkraínumenn sögðu Rússa ekki hafa virt vopnahléið en Rússar sökuðu Úkraínumenn um það sama.

Til stendur að gera aðra tilraun í dag en Andryushchenko segir borgaryfirvöld bera takmarkað traust til Rússa. Hins vegar sé um að ræða hinstu von borgarbúa.

Myndir af því þegar heilbrigðisstarfsmenn freistuðu þess að bjarga hinum 18 mánaða Kirill á spítala í Maríupól á föstudag hafa vakið hörð viðbrögð.Foreldrar Kirill, Fedor og Marina Yatsko, komu með drenginn á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir árás Rússa. Tilraunir til að bjarga Kirill báru ekki árangur.AP/Evgeniy Maloletka



Fleiri fréttir

Sjá meira


×