Erlent

Almennir borgarar féllu í árás Rússa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sprengjur féllu á almenna borgara í bænum Irpin í úthverfi Kænugarðs.
Sprengjur féllu á almenna borgara í bænum Irpin í úthverfi Kænugarðs. Vísir/AP

Að minnsta kosti þrír almennir borgarar létust þegar sprengjur féllu í bænum Irpin við Kænugarð í dag. Óttast er að fleiri hafi látist.

Tvær sprengjur féllu við svæði þar sem almenningur flýr höfuðborgina og nærliggjandi bæi. Samkvæmt úkraínskum yfirvöldum voru tvö börn á meðal þeirra sem létust en óljósar fréttir eru af mannfalli og í einhverjum fjölmiðlum hefur verið sagt að átta manns hafi farist.

Fréttamenn New York Times voru á vettvangi og náðu myndbandi af því þegar sprengjurnar féllu.

Stjórnstöð úkraínska hersins í Kænugarði biðlar til alþjóðlegra stofnana um mannúðarhjálp og segir ástandið vera að versna hratt.

„Þúsundir eru einangraðir vegna átakanna og sums staðar án rafmangs, vants, matar og sjúkrabirgða í 5-6 daga. Þau eru í bráðri hættu,“ segir í yfirlýsingunni.

Vonir um að hægt væri að opna öruggar leiðir svo almenningur gæti yfirgefið átakasvæði hafa dvínað þar sem vopnahlé hefur ekki verið virt. Í dag fóru tilraunir til að rýma hafnarborgina Maríupól út um þúfur í annað sinn og segja Úkraínumenn að Rússar hafi ekki staðið við að láta af árásum.

Þar stóð til að flytja um 200 þúsund manns í öruggt skjól an aðeins tókst að koma 300 íbúum úr borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×