Erlent

Bretar skipu­leggja frekari þvinganir gagn­vart Rússum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Boris Johnson er forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson er forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AP

Breska þingið mun kjósa um frekari viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum á morgun. Boris Johnson segir að nýjar þvinganir geri Bretum kleift að ganga enn harðar fram.

Bretar hafa nú þegar komið á umfangsmiklum viðskiptaþvingunum sem eru þær stærstu í sögu landsins. Meðal annars voru eignir viðskiptamannanna Alisher Usmanov og Igor Shuvalov frystar og þeir settir í ferðabann. Þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta í Bretlandi og eru nátengdir stjórnvöldum í Rússlandi.

Auk þess hafa Bretar beitt þvingunum gagngvart Pútín sjálfum, utanríkisráðherranum Sergei Lavrov og þrjúhundruð öðrum einstaklingum í Rússlandi og Hvíta Rússlandi.

Markmiðið með þvingununum er að auka enn frekar þrýstinginn gagnvart Vladimír Pútín og brjóta niður spillta elítu í kringum forsetann.

Boris Johnson segir að nýjar þvinganir muni eyða vafa um lögmæti viðskiptaþvingananna.

„Þvinganir eru tilgangslausar þar til þær eru almennilega komnar til framkvæmdar. Þessar breytingar munu gera okkur kleift að elta uppi bandamenn Pútín í Bretlandi án nokkurs vafa um lögmæti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×