Erlent

Rússar boða tímabundið vopnahlé til að greiða fyrir rýmingu fjögurra borga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Almennir borgarar í Úkraínu freista þess nú að komast burtu af átakasvæðum eftir gengdarlausar árásir Rússa.
Almennir borgarar í Úkraínu freista þess nú að komast burtu af átakasvæðum eftir gengdarlausar árásir Rússa. epa/Oleksandr Ratushniak

Interfax fréttaveitan hefur eftir heimildarmönnum innan varnarmálaráðuneytis Rússlands að árásum verði tímabundið hætt og öruggar flóttaleiðir opnaðar fyrir almenna borgara Kænugarðs, Maríupól, Kharkív og Súmí.

Þá greinir RIA Novosti frá því að eftir samtal Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Emmanuel Macron Frakklandsforseta verði tímabundnu vopnahlé lýst yfir frá klukkan tíu að Moskvutíma í dag til að greiða fyrir rýmingu áðurnefndra borga.

Rússneski herinn muni hafa eftirlit með brottflutningi fólks, meðal annars með drónum, og eru Úkraínumenn varaðir við því að dreifa fölskum áróðri um að flutningarnir gangi ekki eftir vegna meintra brota Rússa gegn fyrirhuguðu vopnahlé.

Vísa Rússar þarna til þess að aðilar komust að samkomulagi um vopnahlé og rýmingu Maríupól bæði á laugardag og sunnudag en í bæði skiptin var hætt við eftir skamma stund, vegna þess að Rússar héldu áfram árásum að sögn stjórnvalda í Úkraínu.

Fréttir herma að Rússar hyggist stýra því hvert fólk fer þegar það flýr borgirnar, til að mynda verður íbúum Kænugarðs aðeins gert kleift að ferðast til Hvíta Rússlands og þeir sem flýja Kharkív verða að fara til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×