Erlent

Anders Tegnell hættir sem sótt­varna­læknir

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Tegnell hefur gegnt embætti sóttvarnalæknis Svíþjóðar síðan 2013.
Anders Tegnell hefur gegnt embætti sóttvarnalæknis Svíþjóðar síðan 2013. EPA

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, hefur ákveðið að láta af störfum hjá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar. Hann mun taka við stjórnunarstöðu hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) í Genf.

Frá þessu greinir í yfirlýsingu frá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar. Tegnell vakti líkt og margir aðrir sóttvarnalæknar ríkja heims mikla athygli í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hann hefur í faraldrinum ítrekað þurft að svara gagnrýni vegna viðbragða sænskra yfirvalda í faraldrinum, en framan af faraldrinum gripu Svíar til umtalsvert vægari takmarkana en nágrannaríkin.

„Ég hef unnið með bóluefni í þrjátíu ár og hef á sama tíma brunnið fyrir alþjóðamálum. Nú hef ég tækifæri til að leggja mitt af mörkum í hinu alþjóðlega samstarfi. Það er enn mjög mikilvægt að bóluefnin nái einnig til þeirra ríkja sem ekki hafa efnahagslega burði til að kaupa eigin bóluefni,“ segir í Tegnell.

Anders Lindblom, smitsjúkdómalæknir hjá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar, mun taka við stöðunni af Tegnell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×