Þátturinn sem var sýndur í Sky Lagoon í kvöld var tekin upp hér á landi og hluti þáttarins meira að segja tekinn upp í lóninu sjálfu á síðasta ári. Vísir greindi frá því í nóvember að piparsveinninn Clayton Echard hafi verið staddur hér á landi ásamt þremur keppendum við tökur á svonefndum gististefnumótum (e. overnight dates). Keppendurnir fóru meðal annars á stefnumót í Perlunni og Sky Lagoon og svo voru rósirnar afhentar í Hörpu.
Elísabet Inga Sigurðardóttir, fréttamaður okkar, var að sjálfsögðu mætt í Sky Lagoon í kvöld til að hitta á ofuraðdáendurna sem voru mættir í áhorfsveisluna. Veðrið lék þá grátt, eins og keppendur Bachelor þegar þeir voru staddir í lóninu.
„Tvö hundruð aðdánedur þáttanna ætla að koma hingað ofaní í kvöld, þrátt fyrir þetta skemmtilega veður. Við erum búin að vera í hláturskasti yfir þessu veðri,“ sagði Elísabet á meðan rigningin barði á hana.
Starfsmaður Sky Lagoon, sem var viðstaddur þegar tökur fóru fram á þættinum, sagði hálf ótrúlegt að hafa fylgst með keppendunum baða sig.
„Þau fengu sama veður og við erum að upplifa núna þannig að við erum bara að endurtaka sömu upplifun. Það snerist svo í bongó þannig að við höldum í þá von,“ sagði Ragnhildur Harpa Haraldsdóttir, starfsmaður Sky Lagoon.
„Mér finnst þetta bara frábært, þetta er nákvæmlega eins og þetta var á stefnumótinu, þetta er þvílík upplifun,“ sagði Erna Hrund Hermannsdóttir, sem var enn á bakkanum þegar Elísabet ræddi við hana.
„Ég vona að Clayton sjái þessa klippu og sjái að Íslendingar eru gjörsamlega að fórna sér, ég get ekki einu sinni haft augun opin. Þeir sem eru að horfa heima, ég var rosa sæt þegar ég kom ofaní þó ég sé það ekki lengur,“ sagði Eva Ruza Miljevic, sem var mætt ofaní laugina.
Þær sammældust um að ruglið og dramað væri það skemmtilegasta við þættina, sem séu ávanabindandi. Erna segist sjálf hafa horft á þættina frá því að hún var þrettán ára gömul.
„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og þeir sem eru ekki í Bachelor fjölskyldunni eins og við Erna skilja þetta ekki og munu ekki skilja þetta,“ sagði Eva.