Fótbolti

Kristian kom Jong Ajax til bjargar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristian Hlynsson brást ekki bogalistin á vítapunktinum í kvöld.
Kristian Hlynsson brást ekki bogalistin á vítapunktinum í kvöld. Rico Brouwer/Getty Images

Íslenski U-21 landsliðsmaðurinn Kristian Hlynsson var allt í öllu í endurkomu Jong Ajax er liðið gerði 3-3 jafntefli við Dordrecht í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Kristian lék allan leikinn í „holunni“ hjá Jong Ajax sem komst yfir eftir tæplega hálftíma leik en heimamenn svöruðu með tveimur mörkum fyrir lok fyrri hálfleiks og voru 2-1 yfir í hálfleik.

Heimamenn komust 3-1 yfir þegar klukkutími var liðinn en aðeins tveimur mínútum síðar lagði Kristian upp mark fyrir Christian Rasmussen sem minnkaði muninn í 3-2.

Steven Van Der Sloot fékk rautt spjald í liði Jong Ajax þegar fimm mínútur lifðu leiks og útlitið ekki bjart hjá gestunum. Í uppbótartíma fengu gestirnir hins vegar vítaspyrnu, Kristian fór á punktinn og jafnaði metin í 3-3, reyndust það lokatölur leiksins.

Jong Ajax er í 5. sæti B-deildarinnar með 53 stig sem myndi hleypa liðinu í umspil en Kristian og félagar mega ekki fara upp um deild þar sem Ajax er í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×