Fótbolti

Lewandowski jafnar met Heynckes og Werner

Atli Arason skrifar
Robert Lewandowski er búinn að vera magnaður fyrir Bayern München á tímabilinu.
Robert Lewandowski er búinn að vera magnaður fyrir Bayern München á tímabilinu. Getty Images

Robert Lewandowski, framherji Bayern München, skoraði eina mark liðsins í 1-1 jafntefli á útivelli gegn Hoffenheim í gærkvöldi.

Mark Lewandowski var það 17. sem hann skorar á útivelli á tímabilinu og er hann því búinn að jafna met Jupp Heynckes og Timo Werner yfir flest mörk á útivelli á einu tímabili í þýsku úrvalsdeildinni.

Heynckes, fyrrum þjálfari Lewandowski, gerði 17 útivallarmörk fyrir Borussia Mönchengladbach tímabilið 1973-1974 og Werner gerði slíkt hið sama fyrir RB Leipzig tímabilið 2019-2020.

Lewandowski á fjóra útileiki eftir á tímabilinu, gegn Wolfsburg, Mainz, Arminia Bielefeld og Freiburg. Það verður því að teljast ansi líklegt að Lewandowski muni einn eiga þetta met að tímabilinu loknu.

Pólski markahrókurinn er alls búinn að skora 29 mörk í 26 leikjum í þýsku deildinni á þessu tímabili.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×