Innlent

Burðar­dýr í hálfs árs fangelsi fyrir kókaín­inn­flutning

Atli Ísleifsson skrifar
Konan var stöðvuð í tollinum á Keflavíkurflugvelli í mars 2020. Hún var þá að koma með flugi frá París í Frakklandi. Myndin er úr safni.
Konan var stöðvuð í tollinum á Keflavíkurflugvelli í mars 2020. Hún var þá að koma með flugi frá París í Frakklandi. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu á fertugsaldri í hálfs árs fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla rúmlega 300 grömmum af kókaíni í flugi frá París til Íslands í mars 2020. Konan flutti efnin í sjö pakkningum sem hún faldi innvortis.

Í dómnum kemur fram að konan hafi verið stöðvuð í grænu tollhliði í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Konan játaði brot sín skýlaust en í dómnum segir að sannað konan hafi verið þarna í hlutverki svokallaðs burðardýrs. Hún hafi ekki verið eigandi fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Ennfremur segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til greiðrar játningar konunnar bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá verði ekki framhjá því horft að ákærða hafi gert sér far um að upplýsa málið og veitt lögreglu mikilvægar upplýsingar um samverkamenn hér á landi. Þykir sex mánaða fangelsi hæfileg refsing, en til frádráttar kemur óslitið gæsluvarðhald sem konan hafi þurft að sæta frá miðjum janúar síðastliðinn.

Konan var jafnframt gert að greiða 2,2 milljónir króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×