MR bar sigurorð af Fjölbrautarskólanum í Garðabæ, með 31 stigi gegn 26, og fær því verðlaunagripinn eftirsótta, Hljóðnemann, í vörslur sínar þar til sigurvegari næsta árs verður krýndur. Þetta er í 22. skipti sem skólinn vinnur keppnina.
Menntaskólinn í Reykjavík vann keppnina síðast árið 2020, en á síðasta ári var það Verzlunarskóli Íslands sem bar sigur úr býtum í keppninni.
Lið MR var skipað þeim Ingibjörgu Steinunni Einarsdóttur, Kötlu Ólafsdóttur og Oddi Sigurðarsyni, en í liði FG voru þau Dagmar Íris Hafsteinsdóttir, Kjartan Leifur Sigurðsson og Þráinn Gunnlaugsson.
Úrslitarimman var sýnd í beinni útsendingu á Ríkissjónvarpinu, líkt og aðrar viðureignir á síðari stigum keppninnar hafa verið.