Heimamenn frá Moskvu byrjuðu af miklum krafti og voru komnir í 2-0 eftir aðeins tíu mínútna leik. Aðeins stundarfjórðungi síðar voru þeir búnir að bæta tveimur mörkum í viðbót við og staðan því orðin 4-0 eftir rétt um 25 mínútna leik.
Gestirnir minnkuðu muninn á 38. mínútu, en rétt áður en flautað var til hálfleiks krækti Aleksandr Lomovitskiy sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt. Gestirnir í Rubin Kazan þurftu því að leika allan síðari hálfleikinn manni færri.
Heimamenn bættu fimmta markinu við og gestirnir fóru úr öskunni í eldinn fimm mínútm fyrir leikslok þegar Silvije Begic fékk dæmda á sig vítaspyrnu og um leið sitt annað gula spjald og þar með rautt. Yusuf Yazici skoraði úr vítaspyrnunni og gulltryggði 6-1 sigur CSKA Moskvu.
CSKA Moskva situr í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig eftir 22 leiki, líkt og nágrannar þeirra í Dinamo Moskvu. Rubin Kazan situr hins vegar í tíunda sæti með 25 stig.