Hinn 30 ára gamli Haukur Heiðar er uppalinn á Akureyri og hóf ferilinn með KA. Þaðan flutti hann sig um set í vesturbæ Reykjavíkur og lék með KR við góðan orðstýr. Varð hann bæði Íslands og bikarmeistari með liðinu.
Árið 2015 hélt hann til AIK í Svíþjóð þar sem hann varð meðal annars Svíþjóðarmeistari. Þá var hann hluti af landsliðshóp Íslands sem fór á Evrópumótið í Frakklandi sumarið 2016. Alls lék hann sjö A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Haukur Heiðar varð fyrir meiðslum í Svíþjóð sem hafa plagað hann undanfarin ár. Hann hefur verið í röðum KA frá 2019 en aldrei náð að beita sér að fullu. Nú hefur Haukur Heiðar ákveðið að kalla þetta gott en hann ku hafa orðið fyrir hnjaski í æfingarferð KA á Spáni nýverið.
„Eftir að hafa barið hausnum við vegg í 5 ár hef ég ákveðið að segja þetta gott. 4 titlar og 1 EM. Takk fyrir mig!“ segir Haukur Heiðar á Instagram-síðu sinni í dag.