Íslenski boltinn

Bjartsýnn á að gömlu góðu tímarnir komi aftur á nýja heimavellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Hrannar Björnsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, Jannik Pohl, nýr leikmaður Fram, og Jón Þórir Sveinsson, þjálfari liðsins.
Sigurður Hrannar Björnsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, Jannik Pohl, nýr leikmaður Fram, og Jón Þórir Sveinsson, þjálfari liðsins. stöð 2 sport

Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, kveðst ánægður með að hafa krækt í danska framherjann Jannik Pohl en segir að Frammarar þurfi að styrkja sig frekar fyrir átökin í Bestu deild karla. Þeir leika í fyrsta sinn í efstu deild í sumar eftir tæplega áratugar fjarveru.

Pohl var kynntur til leiks á blaðamannafundi í Safamýrinni í dag. Hann lék síðast með Horsens í heimalandinu. Hann hefur einnig leikið í hollensku úrvalsdeildinni.

„Með þessari undirskrift erum við að styrkja liðið. Við erum að fá leikmann með mikla reynslu úr dönsku og hollensku úrvalsdeildunum. Við teljum að þetta sé klárlega góð styrking,“ sagði Jón í samtali við Guðjón Guðmundsson eftir blaðamannafundinn.

Að sögn Jóns ætlar Fram að sækja fleiri leikmenn áður en tímabilið hefst. „Ég reikna með að við þurfum að bæta einhverjum leikmönnum við okkur. Við höfum verið að leita og reyna en markaðurinn er eins og hann er. Við höfum ekki endilega þurft að stækka hópinn, sem er nokkuð stór og þar var mikil samkeppni um stöður í fyrra, en við viljum bæta við okkur leikmönnum sem við teljum að séu af Bestu deildar gæðum,“ sagði Jón en Fram vann Lengjudeildina með miklum yfirburðum í fyrra og setti nýtt stigamet.

Jón segir að Fram hafi gert fína hluti á félagaskiptamarkaðnum á síðustu árum og vonar að það haldi áfram.

„Okkur hefur gengið nokkuð vel á þessum markaði undanfarin ár. Við höfum bætt við okkur á hverju ári og það hefur passað vel fyrir okkur, liðið og hópinn. Við höfum líka reynt að horfa til þess að þetta séu ekki bara leikmenn sem eru góðir í fótbolta heldur falli vel inn í umhverfið hérna,“ sagði Jón.

Klippa: Viðtal við þjálfara Fram

Fram stendur nú í flutningum upp í Úlfarsárdal og Jón segir að það verði mikil lyftistöng fyrir félagið.

„Það sameinar félagið. Við erum búnir að vera á tveimur stöðum og það er erfitt. Við fáum þarna alvöru aðstöðu með flottum heimavelli. Það var reyndar gæfuspor fyrir okkur að spila í Safamýri en við fáum enn betri heimavöll með flottari umgjörð upp í Úlfarsárdal. Þannig að það er mikil tilhlökkun að byrja þar og reyna að fá fólkið í hverfinu á völlinn og gera það að Frömmurum,“ sagði Jón.

Hann var lykilmaður hjá Fram á gullaldarárum félagsins á 9. áratug síðustu aldar. Jón segir að Fram geti komist aftur á þann stall.

„Jájá, klárlega. Það mun gerast á næstu árum en tekur tíma. Við erum í uppbyggingarfasa og gerum ekki stórar og miklar breytingar fyrir þetta tímabil. Við þurfum að horfa aðeins lengra fram til að komast þangað en það er klárlega eitthvað sem félag eins og Fram á að stefna á,“ sagði Jón.

Viðtalið við Jón má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×