Handbolti

Dæmdi hjá systur sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Ýr og Þorleifur Árni Björnsbörn.
Margrét Ýr og Þorleifur Árni Björnsbörn. stöð 2 sport

Sú sérstaka staða kom upp í viðureign KA/Þórs og HK í Olís-deild kvenna í handbolta að annar dómara leiksins dæmdi hjá systur sinni.

Þeir Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson dæmdu leikinn í KA-heimilinu á laugardaginn. Sá síðarnefndi er eldri bróðir markvarðar HK, Margrétar Ýrar Björnsdóttur.

„Þarna var hann að missa jólagjöfina,“ grínaðist Sigurlaug Rúnarsdóttir í Seinni bylgjunni þegar hún horfði á Þorleif dæma víti á HK-inga.

Klippa: Seinni bylgjan - Dæmdi hjá systur sinni

Brynhildi Bergmann Kjartansdóttur, nýjum sérfræðingi Seinni bylgjunnar, finnst skrítið að þessi staða komi upp.

„Ég hélt að þetta mætti ekki. Ég er góð vinkona Guðrúnar Erlu [Bjarnadóttur] og pabbi hennar [Bjarni Viggósson] má ekki dæma leiki hjá henni sem er eðlilegt. Hvernig áttu að vera hlutlaus?“ sagði Brynhildur. „Þetta er eitthvað skrítið en kannski má þetta.“

Sigurlaug tók í sama streng og Brynhildur. „Ég ætla að vera sammála. Ég hélt að þetta mætti ekki. Ég hafði ekki hugmynd um að þau væru systkini. Maður hefur séð að pabbi hennar Guðrúnar Erlu dæmir ekki hjá henni sem er eðlilegt,“ sagði Sigurlaug. Hún ítrekaði samt að ekkert hefði verið yfir dómgæslunni í leiknum á laugardaginn að kvarta.

KA/Þór vann HK, 26-23, í umræddum leik. Akureyringar eru í 3. sæti Olís-deildarinnar en HK-ingar í því sjöunda.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×