Innlent

Sigurður G. hress þrátt fyrir reiðhjólaslys

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurður G. Guðjónsson, þaulvanur hjólamaður, datt illa á reiðhjóli úti á Tenerife. Eins og sjá má er hann illa rispaður á andliti en hann er hress og segir þetta líta verr út en það er.
Sigurður G. Guðjónsson, þaulvanur hjólamaður, datt illa á reiðhjóli úti á Tenerife. Eins og sjá má er hann illa rispaður á andliti en hann er hress og segir þetta líta verr út en það er.

Ekki er sjón að sjá lögmanninn Sigurð G. Guðjónsson eftir reiðhjólaslys á Tenerife.

Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér er Sigurður G. Guðjónsson illa rispaður í andliti en hann datt á hjóli. Andlit fékk að kenna á steini lagðri götunni.

„Já, maður er alltaf í fegrunaraðgerðum,“ sagði Sigurður þegar blaðamaður Vísis hafði samband við hann til Spánar en þar hefur hann dvalið í viku. Hann er væntanlegur á laugardaginn og ætlar þá að taka til óspilltra málanna við lögmannsstörfin. Þetta var stutt frí og hugsað til þess að safna kröftum. En hann kemur ekki heill heim, eða hvað?

„Þetta virkar meira en það er,“ segir Sigurður. „Ég er að hjóla hér niðri á Tenerife, skransaði og datt.“

Þetta óhapp kemur á óvart í ljósi þess að Sigurður er þaulvanur hjólreiðamaður. Hann telur enga ástæðu til að gera mikið úr atvikinu þó það muni eflaust skemmta einhverjum sem hafi horn í síðu hans.

En eru menn ekkert með hjálma þarna á Tenerife?

„Jújú, ég var með hjálm. Annars væri ég miklu rispaðari. Hjálmurinn bjargaði efri hluta andlitsins,“ segir Sigurður hvergi nærri af baki dottinn. Hann stefnir ótrauður á hjólatúr strax á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×