Sport

„Mamma og pabbi blóta mér alltaf fyrir heimskulegar brottvísanir“

Andri Már Eggertsson skrifar
Róbert Aron skoraði sex mörk gegn Haukum í kvöld
Róbert Aron skoraði sex mörk gegn Haukum í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Valur tyllti sér á toppinn eftir sex marka sigur á Haukum 40-36. Róbert Aron Hostert, leikmaður Vals, var afar ánægður með sigurinn. 

„Ég var ánægður með karakterinn í liðinu. Við spiluðum á okkar styrkleikum og það var kraftur í okkur,“ sagði Róbert Aron sem var ánægður með allt í leik Vals.

Valur skoraði fjörutíu mörk og fannst Róberti allt ganga sóknarlega.

„Við spiluðum bara vel, vorum mikið að vinna maður á mann. Í seinni hálfleik vantaði upp á flæðið en samt tókst okkur að troða boltanum inn.“

„Það var lítið um markvörslu í leiknum en okkar maður Sakai Motoki stimplaði sig betur inn í seinni hálfleik.“

Róbert Aron fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir að setja bolinn yfir hausinn á sér í mótmælaskyni og viðurkenndi Róbert að hann læri aldrei þrátt fyrir mikla reynslu.

„Ég virðist aldrei læra sama hversu gamall ég verð. Það eru tilfinningar í þessu og ég er keppnismaður en mamma og pabbi blóta mér alltaf fyrir svona og verð ég að fara að hætta þessu.“

 

Valur er á toppnum þegar haldið er í 22. umferðina og með sigri gegn Selfossi endar Valur sem deildarmeistari og óskar Róbert eftir sömu frammistöðu hjá Val og í leik kvöldsins.

„Við verðum að spila eins og í kvöld og gera þetta fyrir vöfflurnar,“ sagði Róbert Aron léttur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×