Þegar Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu mætti á fund með utanríkisráðherrum NATO og annarra ríkja untan bandalagsins í Brussel í dag voru skilaboð hans mjög einföld.
„Erindi mitt er einfalt. Það eru bara þrjú mál á dagskránni: Vopn, vopn, vopn,“ sagði Kuleba.
Úkraínumenn hafa nú varist víðtækri innrás Rússa í rúman mánuð og náð að reka þá á flótta frá svæði í kringum höfuðborgina Kænugarð þar sem þeir skildu eftir sig gífurlegan hrylling. Kuleba segir Rússa nú safna saman miklum herafla í Donbas íausturhluta landsins þar sem bardagar hafi nú þegar færst í aukana. Vesturlönd hafi því ekki tíma til skjóta ákalli um aukinn hernaðarstuðning í nefndir og bollaleggingar.

„Annað hvort hjálpið þið okkur núna, og þá er ég að tala um daga en ekki vikur, eða hjálp ykkar kemur of seint,“ sagði utanríkisráðherrann að loknum fundi með NATO ráðherrunum.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ákall Kuleba hafa verið skýrt og notið skilnings NATO þjóðanna.

„Ég geri ráð fyrir viðbrögðum eftir þennan fund. Enda liggur í raun alveg fyrir hvað þarf til,“ segir Þórdís Kolbrún.
Kulepa segir að hernaður Rússa færist hratt í aukana í Donbas og muni ná hámarki á allra næstu dögum.
„Mér þykir sárt að þurfa að segja en þetta er sannleikanum samkvæmt. Orrustan um Donbas mun minna ykkur á seinni heimsstyrjöldina með risavöxnum aðgerðum, tilfæringum með þátttöku skriðdreka, brynvarinna ökutækja, flugvéla og stórskotaliði. Þetta verður engin svæðisbundin aðgerðir miðað við það sem við höfum séð á undirbúningi Rússa,“ sagði Kuleba.
Úkraínumenn vara við því að Rússar muni færa innrásina til annarra landa nái þeir markmiðum sínum í Úkraínu. Þórdís Kolbrún segir áhrifamikið að hitta Kuleba og aðra með honum augliti til auglits.
„Stundum er ekki nóg að gera sitt besta. Stundum þarf að gera það sem er krafist og mér finnst vera góður skilningur á því hér. En það er mjög áhrifamikið að horfa í augun á Kuleba og heyra þá beint frá honum bæði hver staðan er og hvernig þau meta framhaldið,“ segir Þórdís Kolbrún.