Fótbolti

„Það eru engin leyndarmál í þessu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttir lék sinn 87. landsleik gegn Hvíta-Rússlandi á fimmtudaginn.
Sif Atladóttir lék sinn 87. landsleik gegn Hvíta-Rússlandi á fimmtudaginn. vísir/bjarni

Sif Atladóttir, aldursforseti íslenska fótboltalandsliðsins, á von á erfiðum leik gegn Tékkum í undankeppni HM á þriðjudaginn. Með sigri í honum komast Íslendingar á topp C-riðils undankeppninnar.

„Leikurinn er mjög mikilvægur. Við erum í góðri stöðu og viljum halda okkur þar. Leikurinn verður erfiður. Þær eru að berjast upp á líf og dauða. Þetta verður skemmtilegur leikur á að horfa,“ sagði Sif í samtali við Vísi á hóteli íslenska liðsins í Prag í gær.

Leikurinn á þriðjudaginn verður þriðji leikur Íslands og Tékklands á sex mánuðum. Íslendingar unnu fyrstu tvo leikina, 4-0 í undankeppni HM og 1-2 á SheBelieves mótinu í Bandaríkjunum.

„Þær vilja spila fótbolta og halda boltanum. Það er áskorun fyrir okkur að mæta þeim. Við spiluðum við þær á SheBelieves Cup fyrir mánuði. Þær eiga harma að hefna og sýna okkur að leikurinn heima var óhapp. Mér finnst við hafa þróað leik okkar vel og við einbeitum okkur að því verður þetta góður leikur,“ sagði Sif.

Klippa: Viðtal við Sif Atladóttur

Hún segir ekkert skrítið að mæta sama liðinu aftur, aðeins nokkrum vikum eftir að hafa spilað við það á æfingamóti.

„Nei, það eru allir að njósna um alla og það eru engin leyndarmál í þessu. Það er bara spurning hvernig maður svarar þegar inn á völlinn er komið,“ sagði Sif.

Ef Ísland vinnur Tékkland duga liðinu fjögur stig í síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni til að komast beint á HM. Sif segir samt enga hættu á að íslenska liðið fari fram úr sér.

„Nei, nei, nei. Við einbeitum okkur bara að þessum leik. Það er hvorki hægt að horfa til baka né fram,“ sagði Sif.

Viðtalið við Sif má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×