Skoðun

Mat­væla­verð í hæstu hæðum sam­kvæmt FAO

Erna Bjarnadóttir skrifar

Hinn 8. apríl, birti Matvæla- og landbúnaðarstofun Sameinuðu þjóðanna (FAO), vísitölu matvælaverðs í mars sl. Vísitalan hækkaði um 12,6% frá fyrra mánuði (um 17,9 stig). Þetta er geigvænleg hækkun og hefur vísitalan aldrei staðið hærra frá því hún var tekin upp árið 1990. Þessi hækkunin endurspeglar nýjar sögulegar hæðir fyrir undirvísitölur verðs á jurtaolíum, kornvörum og kjöti, en undirvísitölur fyrir sykur og mjólkurvörur hækkuðu einnig umtalsvert.

Vísitala kornverðs hækkaði um 17,1% frá febrúar mánuði. Hækkunin er að mestu knúin áfram af röskun á útflutningi frá Úkraínu vegna innrásarinnar þar og þó að minna leyti tengt Rússlandi. Þessi samdráttur bætist við að þegar var farið að gæta minna framboðs á hveiti á heimsmarkaði og áhyggjur að uppskeruhorfum í Bandaríkjunum. Þá blasir við að hækkanir eiga einnig orsakir í hærri orku- og aðfangakostnaði.

Matarolíur (vegetable oils) hækkuðu um 23,2% frá febrúar mánuði. Mikil hækkun vísitölunnar var knúin áfram af hærra verði á sólblómaolíu, pálma, soja og repjuolíu. Úkraína er stærsti framleiðandi sólblómaolíu í heiminum og útflutningur þaðan hefur að miklu leyti stöðvast vegna stríðins þar í landi. Samhliða hefur síðan verð á pálma-, soja- og repjuolíu hækkað umtalsvert og er drifið áfram af brestum í framboði á sólblómaolíu. Athyglisvert er einnig að óstöðugt og hærra verð á hráolíu hefur einnig stuðlað að hækkandi verði á jurtaolíu á heimsmarkaði.

Mjólkurvörur hækkuðu um 2,6% í mars og kjöt um 4,8%, samkvæmt matvælaverðs vísitölu FAO. Fleiri þættir eins og samdráttur í mjólkurframleiðslu í Vestur-Evrópu, útbreiðsla fuglaflensu og minna framboð nautakjöts í lykilframleiðslulöndum eru þar m.a. nefnd sem áhrifaþættir. Í þessu sambandi má minna á að innlendar mjólkurvörur hafa aðeins hækkað um 4.47% frá 1. desember á síðasta ári, samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar meðan hækkun mjólkurafurða samkvæmt FAO nemur 9,4% frá desember 2021 – mars 2022.

Þá hækkaði sykur um 6,7% í mars sem er að mestu rakið til hækkana á hráolíuverði. Góðar uppskeruhorfur á Indlandi héldu hins vegar þar á móti verðhækkunum. Augljóst er að þessar hækkanir munu segja til sín hér á landi sem annarsstaðar í heiminum. Það verða þó fátækustu íbúar jarðarinnar sem verða harðast úti í þessum sviptingum.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×