Fótbolti

„Þakklát fyrir öll tækifæri sem ég hef fengið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur verið í sigurliði í sex af átta landsleikjum sínum.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur verið í sigurliði í sex af átta landsleikjum sínum. stöð 2 sport

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð á milli stangana þegar Ísland vann 0-5 sigur á Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM á fimmtudaginn. Ísland mætir Tékklandi í Teplice á morgun í afar mikilvægum leik.

„Ég á von á hörkuleik og geggjaðri skemmtun,“ sagði Cecilía í samtali við Vísi fyrir æfingu íslenska liðsins í Prag í gær.

Það er mikið undir fyrir Ísland í leiknum á morgun en enn meira fyrir Tékkland sem verður að vinna til eiga möguleika á að ná 2. sæti riðilsins og komast þannig í HM-umspilið.

„Bæði lið fara í hann til að vinna og kannski verður hann aðeins opnari,“ sagði Cecilía.

Óhætt er að segja að landsliðsferill Cecilíu hafi farið vel af stað. Hún hefur leikið átta landsleiki og haldið hreinu í sex þeirra.

„Ég þakka það geggjaðri varnarlínu, frá fremsta til aftasta manns. Við setjum leikinn alltaf vel upp og erum hundrað prósent í öllu,“ sagði Cecilía sem er aðeins átján ára.

Klippa: Viðtal við Cecilíu Rán

En átti hún von á því að fá svona mörg tækifæri með landsliðinu snemma á ferlinum eins og hún hefur fengið?

„Bæði og. Ég er alltaf tilbúin þegar ég fæ tækifæri og er þakklát fyrir öll tækifæri sem ég hef fengið og vonandi verða þau fleiri í framtíðinni,“ svaraði Cecilía sem veit ekki enn hvort hún verður í markinu í Teplice á morgun.

„Ég hef enga hugmynd um það. Það er bara undir Steina komið. En auðvitað vonast ég til að fá að spila.“

Cecilía og Sandra Sigurðardóttir hafa skipt markvarðastöðunni hjá íslenska landsliðinu á milli sín undanfarin misseri og ekki liggur fyrir hvor þeirra er markvörður númer eitt. Cecilía vonast að sjálfsögðu til að fá tækifærið á EM í sumar.

„Ég get ekkert gert í því. Steini ræður því en ég vil bara nýta hvern einasta dag til að verða betri og grípa tækifærin sem ég fæ,“ sagði Cecilía að lokum.

Viðtalið við Cecilíu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Vonast auðvitað til að fá einhverjar mínútur“

Selma Sól Magnúsdóttir er gíruð fyrir leikinn stóra gegn Tékklandi í undankeppni HM á þriðjudaginn. Með sigri í honum færist íslenska fótboltalandsliðið nær því markmiði sínu að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

„Ætlum að ná í þessi þrjú stig“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir segir að íslenska fótboltalandsliðið sé ánægt með hvernig það spilaði í 0-5 sigrinum á Hvíta-Rússlandi á fimmtudaginn. Á þriðjudaginn mætir Ísland svo Tékklandi í afar mikilvægum leik í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×