Skoðun

Er Hafnar­fjörður að breytast úr fal­legu sjávar­þorpi í út­hverfi Reykja­víkur?

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Er hagkvæmt að þenja út byggðina? Stutta svarið er nei. Langa svarið er að það er hagkvæmt fyrir verktakana en fyrir sveitarfélagið Hafnarfjörð og íbúa þess er það mjög dýrt. Það er rándýrt að vera með lengra gatnakerfi sem þarf að moka og halda við. Það er dýrt að leggja og reka lengri veitulagnir, það er kostnaðarsamt að byggja fleiri skóla og reka þá í stað þess að nýta betur vannýtta skóla og það er dýrt að láta strætó aka fleiri kílómetra. Rekstrarkostnaður útþenslustefnunnar er mikill.

Það er kannski auðveldara til skamms tíma að byggja bara ný úthverfi í upplandi Hafnarfjarðar þar sem rekstrarkostnaðurinn bítur ekki fyrr en seinna. Sá höfuðverkur verður annarra að eiga við en núverandi valdhafa. Þessi værukærð, metnaðarleysi og skortur á framtíðarsýn leiðir til þess óhjákvæmilega að Hafnarfjörður er smám saman að verða úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.

Það er erfitt og flókið að byggja upp góðan og áhugaverðan bæ, en auðvelt að byggja úthverfi og svefnbæi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í Hafnarfirði hafa sýnt á spilin á þessu kjörtímabili. Þegar á reynir velja þeir auðveldu leiðina, hafna metnaðarfullum þéttingarhugmyndum en velja þess í stað úthverfaleiðina.

Komnar voru fram hugmyndir 2018 um áhugavert og lifandi hverfi Hraun Vestur en meirihlutanum hefur tekist að breyta þeim hugmyndum í enn eitt úthverfið. Það eru einnig komnar fram áhugaverðar hugmyndir um uppbyggingu Flensborgarhafnar en ég óttast það að núverandi meirihluti muni einnig breyta því í einsleitt úthverfi.

Nýjasta útspil meirihlutans er svo að brjóta sig út úr svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til að byggja í upplandinu úthverfi fljótt og örugglega með öllum þeim mikla tilkostnaði sem íbúar Hafnarfjarðar þurfa að greiða til allrar framtíðar.

Það skiptir máli að kynna sér raunverulegar ákvarðanir flokka þegar þeir hafa ákvarðanavaldið. Hljóð og mynd fara svo sannarlega ekki saman. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru á góðri leið með að breyta Hafnarfirði í úthverfi. Það má ekki gerast. Kæri kjósandi, þann 14. maí er valið og valdið þitt.

Meiri fagmennsku, meiri metnað, meiri Viðreisn.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×