„Reynslumiklir menn í mínu liði mættu bara grautlinir í leikinn,“ sagði Baldur Þór brjálaður eftir leik og hélt áfram.
„Menn eiga að skammast sín, þetta var hræðilegt. Menn eiga að skammast sín þegar þeir mæta svona í leikinn, þetta eru leikmenn sem hafa spilað flestu mínúturnar í úrslitakeppninni og er það út í hött að menn skuli koma með svona frammistöðu.“
Keflavík var með forystu allan leikinn en Tindastóll minnkaði forskot heimamanna niður í tvö stig í fjórða leikhluta og var Baldur ánægður með þá sem stigu upp þar.
„Við fórum í geðveiki. Við fórum í svæðisvörn og þarna voru menn með hjarta og vilja inn á vellinum. Mér fannst bara vanta smá upp á að við hefðum geta stolið þessu en þetta var ekki boðlegt í kvöld.“
Baldur hrósaði leikmönnunum sem komu af bekknum og gáfu allt í leikinn og taldi að mínúturnar þeirra yrðu fleiri í oddaleiknum ef þeir munu halda áfram að spila eins og þeir gerðu.
„Þeir sem eru að standa sig fá að spila. Ef þú ert ekki að standa þig þá endarðu á bekknum,“ sagði Baldur Þór að lokum.