Handbolti

„Klæddi ég hann úr? Eitthvað aðeins“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tobias Wagner klæðir sig í treyju sína eftir að Ýmir Örn Gíslason reif hann úr henni.
Tobias Wagner klæðir sig í treyju sína eftir að Ýmir Örn Gíslason reif hann úr henni. vísir/hulda margrét

Ýmir Örn Gíslason stóð að venju í ströngu í vörninni þegar Ísland vann Austurríki, 34-26, í seinni leik liðanna um sæti á HM 2023.

„Fyrstu 10-15 mínúturnar voru einfaldlega ekki nógu góðar í vörninni en þegar við náðum að vera ágengir og þéttir í leiðinni small þetta. Svo komum við rosalega sterkir til leiks í seinni hálfleik og kláruðum þetta þar,“ sagði Ýmir í samtali við Vísi eftir leikinn á Ásvöllum.

Hann kvaðst ekki hafa haft miklar áhyggjur af því að niðurstaðan yrði önnur en að Ísland færi áfram.

„Það var jafnt eftir tíu mínútur en ég vissi að það voru fimmtíu mínútur eftir þannig ég var ekki mikið að stressa mig. Ég vissi að við ættum allir örlítið inni og það kom,“ sagði Ýmir.

„Ég hefði viljað að við hefðum verið aðeins meira sannfærandi í vörninni og gera betur þar. Við erum með frábært samspil varnar og markmanns en það klikkaði aðeins í fyrri leiknum. Við varnarmennirnir eigum líka sök á því. Það var það eina sem ég hefði viljað sjá okkur gera betur,“ sagði Ýmir.

Hann átti í mikilli baráttu við beljakann Tobias Wagner á línunni hjá Austurríki.

„Það var gaman að eiga við hann. Þetta er alvöru ísskápur. En þetta gekk ágætlega vel. Við unnum nokkra bolta af honum,“ sagði Ýmir sem klæddi Wagner úr treyjunni í fyrri hálfleik þótt hann hafi viljað viðurkenna það.

„Var það? Eitthvað aðeins,“ sagði Ýmir glettinn að lokum.


Tengdar fréttir

„Fékk gæsahúð mörgum sinnum“

Guðmundur Guðmundsson var hæstánægður eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM með átta marka sigri á Austurríki, 34-26, í seinni leik liðanna í umspili í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×