Erlent

Velur af­töku­­sveit fram­yfir raf­­­magns­­­stólinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mynd frá fangelsisyfirvöldum í Suður Karólínu. Til hægri er rafmagnsstóll en til vinstri aftökusveitarstóllinn. Þeim síðarnefnda var nýverið bætt við aðstöðuna í fangelsinu í höfuðborginni Columbia.
Mynd frá fangelsisyfirvöldum í Suður Karólínu. Til hægri er rafmagnsstóll en til vinstri aftökusveitarstóllinn. Þeim síðarnefnda var nýverið bætt við aðstöðuna í fangelsinu í höfuðborginni Columbia. Vísir/AP

Maður sem situr á dauðadeild í Suður Karólínu hefur ákveðið að aftökusveit muni taka hann af lífi í stað þess að setjast í rafmagnsstólinn. Aftakan verður sú fyrsta í ríkinu í meira en áratug.

Richard Moore var dæmdur til dauða eftir að hafa myrt afgreiðslumann í verslun árið 1999 og hefur setið á dauðadeild í Suður Karólínu síðan þá. Aftaka hans er áætluð þann 29.apríl næstkomandi en hún verður sú fyrsta í ríkinu í meira en áratug.

Í dómsskjölum sem birt voru í gær kemur fram að Moore hafi valið að vera tekinn af lífi af aftökusveit en hann bindur vonir við tvö dómsmál þar sem kveðið verður á um hvort aðferðir Suður Karólínu við aftökur standist stjórnarskrá.

Mynd sem fangelsisyfirvöld í Suður Karólínu hafa birt af Richard Moore.Vísir/AP

„Ég tel að með þessu vali sé verið að neyða mig til að velja á milli tveggja aðferða sem standast hvorugar stjórnarskrá,“ segir Moore í yfirlýsingu.

Moore gat ekki valið að vera tekinn af lífi með banvænni sprautu þar sem ekki eru til réttu lyfin í Suður Karólínu. Fram kemur í grein CNN að lyfið hafi ekki verið til síðan 2013. Lyfjafyrirtæki hafa ítrekað neitað að selja yfirvöldum lyf sem notuð eru við aftökur.

Aðferð sem notuð er í fjórum ríkjum

Á síðasta ári samþykktu yfirvöld í Suður Karólínu lög þar sem ákveðið var að rafmangsstóllinn yrði fyrsti kostur þegar fangar væru teknir af lífi þó þeir dauðadæmdu gætu einnig kosið að notuð yrði aftökusveit eða banvæn sprauta.

Í tilkynningu sem fangelsisyfirvöld í Suður Karólínu birtu í mars kemur fram að þrír sjálfboðaliðar meðal starfsmanna fangelsismálastofnunar myndi umrædda aftökusveit. Allir þurfa þeir að standast strangar kröfur stofnunarinnar. 

Rafmagnsstóllinn í fangelsinu í Columbia í Suður Karólínu.Vísir/AP

Aftakan fer þannig fram að eftir að fanginn kemur inn í herbergið þar sem aftakan fer fram fái hann tækifæri til að gefa yfirlýsingu. Hann sé síðan bundinn niður og andlit hans hulið.

Þegar búið er að koma skotmarki fyrir rétt ofan við hjarta fangans mun aftökusveitin skjóta en þeir munu ekki vera sýnilegir áhorfendum sem fylgjast með. Skotheldu gleri hefur verið komið fyrir í herbergi þar sem áhorfendurnir verða.

Suður Karólína, Oklahoma, Mississippi og Utah eru þau ríki Bandaríkjanna þar sem aftökusveitir eru notaðar við aftökur en aðeins í Utah hefur sú aðferð verið notuð og það í fjögur skipti síðan árið 1960.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×