Fótbolti

Sveindís og stöllur á leið í úrslit eftir sigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar með liðsfélögum sínum í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar með liðsfélögum sínum í dag. Silas Stein/picture alliance via Getty Images

Þýsku stórliðin Bayern München og Wolfburg áttust við í Íslendingaslag undanúrslitum þýska bikarsins í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar eru á lið í úrslit eftir öruggan 3-1 útisigur.

Sveindís var í byrjunarliði Wolfsburg og var tekin af velli á lokamínútunni, en Glódís Perla Viggósdóttir byrjaði fyrir Bayern og var tekin af velli þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Gestirnir í Wolfsburg tóku forystuna um miðjan fyrri hálfleikinn með marki frá Jill Roord áður en Jovana Damnjanovic jafnaði metin fyrir Bayern snemma í síðari hálfleik.

Jill Roord var svo aftur á ferðinni þegar hún kom Wolfsburg yfir á nýjan leik með marki á 61. mínútu, en það var svo Tabea Wassmuth sem gerði út um leikinn þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Lokatölur urðu því 3-1 Wolfsburg í vil og liðið er á leið í úrslit, en Bayern situr eftir með sárt ennið. Andtæðingur Wolfsburg í úrslitum verður annað hvort Bayer Leverkusen eða Potsdam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×