Sport

„Trúi á frasann vörn vinnur titla“

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Ingi var kátur með sigur kvöldsins
  Vísir/Vilhelm

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var í skýjunum með ellefu stiga sigur í Ólafssal 59-70. Njarðvík leiðir því úrslitaeinvígið 1-0 í Subway-deild kvenna. 

„Þetta er frábært íþróttahús sem okkur líður vel í eins og á mörgum stöðum því við erum gott körfuboltalið,“ sagði Rúnar Ingi um þriðja sigur Njarðvíkur í röð í Ólafssal.

Haukar voru yfir nánast allan leikinn en Njarðvík tók yfir þegar fimm mínútur voru eftir sem skilaði sigri Njarðvíkinga.

„Mér fannst góður taktur í leiknum þar til við fórum að ruglast varnarlega og þá refsuðu Haukar okkur. Við fórum að nýta Aliyah Collier meira nálægt körfunni sem skilaði sér.“

„Í fjórða leikhluta settum við stór skot og spiluðum góða vörn sem ég var mjög ánægður með.“

Njarðvík hefur verið í mörgum jöfnum leikjum í vetur og fannst Rúnari sú reynsla skila sér í kvöld.

„Við höfum verið í fullt af jöfnum leikjum í vetur og það hjálpaði til. Við vitum núna hvernig við viljum bregðast við í mótlæti og við gerðum það afar vel í kvöld.“

Liðin mætast næst í Ljónagryfjunni og óskaði Rúnar eftir því að hans konur myndu spila vel í fjörutíu mínútur.

„Í næsta leik þurfum við að fara eftir reglunum í fjörutíu mínútur. Þetta einvígi snýst um vörn og ég trúi frasanum vörn vinnur titla,“ sagði Rúnar Ingi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×