Íslenski boltinn

Sí­ungur Birkir Már kominn með fjögur hundruð deildar­leiki á ferlinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Már hefur átt magnaðan feril og virðist eiga nóg eftir
Birkir Már hefur átt magnaðan feril og virðist eiga nóg eftir Vísir/Bára Dröfn

Birkir Már Sævarsson náði mögnuðum áfanga er Valur vann ÍBV 2-1 í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Hinn síungi Birkir Már var nefnilega að hefja sitt 20. tímabil í meistaraflokki og spilaði þarna sinn 400. deildarleik á ferlinum.

Víðir Sigurðsson á íþróttadeild Morgunblaðsins benti á þessa mögnuðu staðreynd. Hinn 37 ára gamli Birkir Már sýndi í leiknum gegn ÍBV að gælunafn hans – Vindurinn – á enn við en hann var sem rennilás upp og niður hægri væng Valsmanna í leiknum.

Hann hefur aðeins leikið með Val hér á landi (alls 148 leikir) en hinir leikirnir hafa komið í Noregi (168) og Svíþjóð (84). 

Landsliðsbakvörðurinn fyrrverandi ákvað að bíða þangað til hann væri farinn að nálgast fertugt með að reima á sig markaskóna. Af þeim 33 mörkum sem hann hefur skorað á ferlinum þá hafa 11 komið í treyju Vals á undanförnum fjórum árum.

Þó landsliðsskórnir séu farnir upp á hillu eftir alls 103 A-landsleiki þá virðist engan bilbug vera að finna á Birki Má og stefnir hann eflaust á að hjálpa Val í toppbaráttu Bestu deildarinnar í sumar. Mögulega með nokkrum mörkum, hver veit.

Valur heimsækir Keflavík í 2. umferð Bestu deildarinnar á sunnudaginn kemur, 24. apríl.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×