Skoðun

Hafnar­fjörður – bær fram­kvæmdanna

Orri Björnsson skrifar

Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði komst í meirihluta árið 2014 hefur ríkt mikið framkvæmda- og framfaraskeið í bænum. Eftir ísaldarkjörtímabil vinstrimanna, þar sem ekkert var framkvæmt vegna afleitrar fjárhagsstöðu og óstjórnar, fór landið að rísa hratt. Tekið var til í rekstri bæjarins og þar með lagður grunnur að miklu framkvæmdaskeiði. Reksturinn hefur verið traustur í höndum Sjálfstæðisflokksins og vegna þess höfum við að mestu framkvæmt fyrir eigið fé.

Hvað höfum við gert?

Á fyrra kjörtímabili okkar var strax gefið í og framkvæmdir stórauknar auk þess sem viðhaldi var mikið betur sinnt en verið hafði.

  • 2014 til 2018 Viðhald: 2.500 milljónir Framkvæmdir: 10.600 milljónir
  • 2018 til 2022 Viðhald: 3.800 milljónir Framkvæmdir: 17.500 milljónir

Á síðasta kjörtímabili vinstrimanna framkvæmdu þeir fyrir 3,1 milljarð og settu 1,3 í viðhald.Meira gátu þeir ekki gert vegna viðvarandi óstjórnar um langt árabil. Á yfirstandandi kjörtímabili höfum við því að meðaltali framkvæmt meira á hverju einasta ári en vinstrimenn á öllu sínu síðasta kjörtímabili. Þessar sláandi tölur segja allt sem segja þarf um muninn á stjórn með vinstrimönnum annars vegar og hins vegar þegar við Sjálfstæðismenn erum í meirihluta. Á sama tíma hafa raunskuldir Hafnarfjarðar lækkað þrátt fyrir að lífeyrisskuldbindingar hafi hækkað um 6.600 milljónir á tímabilinu.

Hvað ætlum við að gera?

Með sama hætti ætlum við okkur að leiða bæinn í gegnum stærsta vaxtarskeið sögunnar.. Við ætlum að framkvæma mikið og vel, bæta þjónustu og halda bænum í fremstu röð á öllum sviðum. Skynsamleg fjármálastjórn, skipulagðar framkvæmdir og ígrundaður undirbúningur hafa lagt grunninn. Núna göngum við til verks og tryggjum að Hafnarfjörður verði áfram besti bær landsins til að búa í, hlýlegt og gott samfélag sem fólk vill tilheyra. Við treystum á þinn stuðning og lofum nú sem endranær að gera aðeins það besta fyrir Hafnarfjörð.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×