Fótbolti

Gagnrýni Söru á mótshaldara EM vekur heimsathygli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Söru Björk Gunnarsdóttur finnst óskiljanlegt að leikir Íslands á EM fari ekki fram á stærri leikvöngum.
Söru Björk Gunnarsdóttur finnst óskiljanlegt að leikir Íslands á EM fari ekki fram á stærri leikvöngum. epa/Tibor Illyes

Gagnrýni Söru Bjarkar Gunnarsdóttur á mótshaldara EM 2022 hefur vakið heimsathygli. Hún er afar ósátt við að tveir leikir Íslands á mótinu fari fram á akademíuleikvangi Manchester City.

Sara var gestur í hlaðvarpsþættinum Their Pitch þar sem hún ræddi meðal annars um vellina sem hýsa leikina í riðli Íslands á EM. Tveir leikir íslenska liðsins fara fram á akademíuleikvangi City og einn á heimavelli Rotherham United.

Akademíuleikvangur City tekur aðeins 4.700 manns í sæti og langt er síðan seldist upp á báða leiki Íslands þar á EM. Völlurinn í Rotherham tekur ellefu þúsund manns í sæti. Sara segir vanvirðingu fólgna í valinu á keppnisvöllunum og skilur ekki af hverju leikirnir fari ekki fram á stærri leikvöngum í takt eins og þróunin er í kvennaboltanum.

„Ég er svolítið vonsvikin með leikvangana sem við fengum. Það er átakanlegt að með alla þessa leikvanga sem eru í boði á Englandi þá séum við á æfingavelli Manchester City sem tekur um 4-5.000 áhorfendur. Þetta er vandræðalegt,“ sagði Sara sem telur að allt að tuttugu þúsund íslenskir áhorfendur væru tilbúnir að koma á leikina á EM.

Sara er langfrægasta fótboltakona Íslands og hefur verið ein fremsta fótboltakona heims undanfarin ár. Gagnrýni hennar á valinu á keppnisvöllum á EM hefur því vakið mikla athygli. Meðal miðla sem hafa fjallað um ummæli hennar í Their Pitch eru BBC, The Guardian, The Telegraph og The Athletic.

Akademíuvöllurinn í Manchester, sem er líka heimavöllur kvennaliðs City, er minnsti leikvangurinn á EM. Þar á eftir koma völlurinn í Rotherham og Leigh Sports Village í Leigh. Ef Ísland lendir í 2. sæti riðilsins leikur það í Leigh í átta liða úrslitunum. Ef Ísland vinnur riðilinn leikur það í Rotherham í átta liða úrslitunum.

Sara er á leið á sitt fjórða Evrópumót. Hún sneri aftur í landsliðið fyrir leikina gegn Hvíta-Rússlandi og Tékklandi í undankeppni HM og kom við sögu í þeim báðum. Ísland fékk sex stig út úr leikjunum og er því í góðri stöðu fyrir lokasprettinn í undankeppninni. Ef Ísland fær fjögur stig út úr síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni kemst liðið á HM í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×