Skoðun

Vertu úti Hafnfirðingurinn þinn!

Árni Þór Finnsson skrifar

Bæjarlistinn vill styðja við náttúruvitund og fjölbreytta útivist íbúa Hafnarfjarðar. Koma þarf á öflugu samstarfi við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um uppbyggingu og rekstur þjónustu- og fræðslumiðstöðvar, viðhald og gerð stíga, bæta aðgengi hreyfihamlaðra við Hvaleyrarvatn og vinna í bættri aðstöðu fyrir fjölskyldur og vini til að koma saman og eiga góða stund.

Hafnfirðingar búa í námunda við stórkostlegar náttúruperlur t.d. útivistarsvæðið við Hvaleyrarvatn, Stórhöfða, Seldal, Undirhlíðar, Valaból og Helgafell svo fátt eitt sé nefnt. Tryggja þarf fjármagn til stígagerðar og viðhalds á þeim, gerð og uppsetningu fræðsluskilta, vegvísa og yfirlitskorta á svæðinu. Gera þarf íbúum Hafnarfjarðar kleift að njóta þeirrar náttúru sem upplandið hefur upp á að bjóða með fullnægjandi og auðveldu aðgengi að viðunandi upplýsingum og merkingum.

Huga þarf að því að koma á fót þjónustu- og fræðslumiðstöð með samningi við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Slík miðstöð hefði m.a. það hlutverk að þjónusta leik- og grunnskóla með það að leiðarljósi að efla og auka náttúruvitund nemenda með útikennslu, leiðbeina um mikilvægi náttúrunnar, hvernig eigi að umgangast hana auk þess að fræða um flóru og fánu svæðisins. Þá væri slík miðstöð kjörin til að efla getu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar til að sinna fræðsluerindum fyrir íbúa Hafnarfjarðar sem félagið hefur unnið ötullega að í gegnum tíðina.

Svæðið er fyrir alla og útivist er fyrir alla sem hana vilja stunda. Gera þarf hreyfihömluðum og þeim sem styðja sig við hjálpartæki kleift að njóta þess sem svæðið í kringum Hvaleyrarvatn hefur upp á að bjóða. Það er hægt með skipulögðu átaki í að slétta stíginn og styrkja kanta á þeim tveimur kílómetrum sem göngustígurinn umhverfis Hvaleyrarvatn er.

Koma þarf upp aðstöðu fyrir fjölskyldur og vini til að koma saman. Gera má leiksvæði úr efnivið sem fellur til við grisjun skógarins og byggingu grillhúss í námunda við vatnið.

Það er engum vafa undirorpið að útivist eða útivera á fallegu, grónu svæði eykur á vellíðan flestra sem slíkt stunda. Það er hlutverk bæjarins að gera íbúum sveitarfélagsins kleift að njóta alls þess besta sem það hefur upp á að bjóða hverju sinni.

Það er lýðheilsumál!

Höfundur skipar 3. sæti á lista Bæjarlistans í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×