Enski boltinn

Serena og Lewis Hamilton hluti af hópi fjár­festa sem vill kaupa Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton og Serena Williams gætu átt lítinn hlut í Chelsea þegar félagið verður loksins selt.
Lewis Hamilton og Serena Williams gætu átt lítinn hlut í Chelsea þegar félagið verður loksins selt. Eurosport

Enska fótboltafélagið Chelsea er til sölu og virðist vera töluverður fjöldi fólks sem er tilbúið að festa kaup á félaginu. Það kostar hins vegar morðfjár og ekki margir sem geta keypt það án þess að fá utanaðkomandi aðstoð. 

Þar koma tennisdrottningin Serena Williams og eitt albesti ökumaður allra tíma, Lewis Hamilton, inn í.

Samkvæmt heimildum Reuters eru Serena Williams og Lewis Hamilton hluti af teymi Martins Broughton en þessi fyrrum formaður fótboltafélagsins Liverpool og flugfélagsins British Airways vill ólmur kaupa Chelsea.

Bæði Serena og Hamilton munu leggja til tíu milljónir punda hvort til að aðstoða Broughton -og þann hóp fjárfesta sem hann hefur með sér – við kaupin á Chelsea.

Serena hefur unnið 23 risamót á tennisferli sínum en hefur einnig fjárfest ríkulega í hinum ýmsu hlutum að undanförnu. Til að mynda er hún hluti af glæstu teymi sem setti Angel City – kvennafótboltalið í Bandaríkjunum – á laggirnar.

Sömu sögu er að segja af Hamilton sem hefur sjö sinnum orðið heimsmeistari í Formúlu 1nkappakstri. Það sem kemur ef til vill helst á óvart við þessar fréttir er að Hamilton er Arsenal stuðningsmaður.

Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem stórstjörnur íþróttaheimsins myndu fjárfesta í enskum fótboltaliðum en körfuboltakappinn LeBron James hefur verið lítill hluthafi í Liverpool í meira en áratug.

Roman Abramovich keypti Chelsea í upphafi aldarinnar og hefur verið eigandi félagsins allar götur síðan. Hann er nú að reyna selja félagið og koma eingöngu fjárfestingarhópar til greina.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með hver kaupir á endanum Evrópumeistarana og hvort svo fjölmenn stjórn muni geta fylgt eftir árangri Abramovich en Rússinn hefur dælt eigin fé inn í félagið allt síðan hann keypti það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×