Skoðun

Fjár­festana úr bíl­stjóra­sætinu

Helga Jónsdóttir skrifar

Undanfarin ár hafa ákvarðanir um skipulagsmál í Kópavogi markast af þörfum fjárfesta sem í krafti mikils fjármagns kaupa upp eignir og svæði í trausti þess að hagnast að lokum á breyttu deiliskipulagi. Bæjaryfirvöld, sem ber að annast deiliskipulag, hafa gengið í þeirra lið og heimilað þeim að taka frumkvæði í skipulagsmálum. Þannig hafa fjárfestar keypt eignir beinlínis til niðurrifs og síðan fengið heimildir bæjaryfirvalda til að gera vinnslutillögur um fordæmalaust byggingarmagn á „þróunarreitum“. Fjárfestarnir selja byggingarréttinn áfram til verktaka og ætlast til að fá eitthvað fyrir sinn snúð – milligöngu – sem hvergi er gert ráð fyrir í skipulags- og uppbyggingarreglum. Með þessu eykst kostnaður verktaka sem loks endurspeglast í síhækkandi íbúðarverði. Verði sem kaupendur axla.

Skipulag fyrir fólk, ekki fjármagn

Skipulagsáætlanir snúast um skynsamlega nýtingu lands með almannahagsmuni að leiðarljósi, þróun mannvæns samfélags, þjónustu og samgöngur, samræmt og fallegt útlit byggðar, lýðheilsu og lífsskilyrði fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Að lögum ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Með verklagi Kópavogsbæjar taka skammtíma hagnaðarsjónarmið völdin. Hagur bæjarbúa um uppbyggingu til aukinna lífsgæða, jafnt fyrir þá sem fyrir eru og hina sem boðnir eru velkomnir, er hinsvegar fyrir borð borinn.

Þátttökulýðræði

Vinir Kópavogs leggja höfuðáherslu á að þátttökulýðræðið þjóni tilgangi sínum. Íbúar í grennd deiliskipulagsreita eiga rétt á að hlustað sé á skoðanir þeirra, ekki bara til málamynda til að tikka í box. Lausnirnar verða betri með þannig verklagi og sáttin og traustið í samfélaginu líka. Þátttaka byggingarfyrirtækja og verktaka er nauðsynleg í uppbyggingu bæjarins. Fjárfestum sem milliliðum er ofaukið. Það þarf líka að vanda tímasetningar. Þegar bæjaryfirvöld hafa átt gott samtal við bæjarbúa og komin er niðurstaða um megin forsendur í skipulagi er fyrst tímabært að kalla athafnamennina til verka.

Höfundur skipar fyrsta sæti á framboðslita Vina Kópavogs og er fyrrverandi borgarrritari og bæjarstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×