Viðskipti innlent

Enginn annar kostur en að slíta við­skiptum í ljósi að­gerða Rússa

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekanda, segir Ísland að einhverju leyti eftir öðrum löndum þegar kemur að því að slíta tengsl við Rússland.
Ólafur Stephensen, framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekanda, segir Ísland að einhverju leyti eftir öðrum löndum þegar kemur að því að slíta tengsl við Rússland. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gagnrýnir að íslensk fyrirtæki stundi enn viðskipti við Rússland tveimur mánuðum eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Hann segir að Ísland beri siðferðislega ábyrgð til að bregðast við hryllingnum í Úkraínu og að einangra þurfi Rússa eins mikið og hægt er. 

Rússar halda áfram sókn sinni austurhluta Úkraínu þessa dagana og stefna rússneskar hersveitir á að ná Donbas alfarið á sitt vald. Í morgun var sömuleiðis greint frá sprengingum víðar í Úkraínu, til að mynda á fimm lestarstöðvar í mið- og vesturhluta Úkraínu.

Utanríkisráðherra og varnamálaráðherra Bandaríkjanna funduðu með forseta Úkraínu í gær um stöðu mála og á blaðamannafundi í dag greindu þeir frá því að Bandaríkin kæmu til með að veita Úkraínu frekari aðstoð, meðal annars í formi vopna.

Allir þurfi að bregðast við

Auknar vopnasendingar eru í takt við kröfur úkraínskra yfirvalda en þau hafa einnig ítrekað kallað eftir allsherjarviðskiptabanni við Rússa. Einhver lönd og fyrirtæki hafa verið treg til þess, meðal annars hérna á Íslandi.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir mikilvægt að bæði stjórnvöld og atvinnulífið í lýðræðisríkjum bregðist við með það fyrir sjónum að einangra Rússland eins og hægt er á alþjóðavettvangi og í viðskiptum.

„Árás Rússlands á Úkraínu er svo mikil aðför að friði í okkar heimshluta og því alþjóðakerfi sem hefur verið byggt upp á átta áratugum eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, að það verða einhvern veginn allir að mynda sér skoðun á þessum atburði og bregðast við honum,“ segir Ólafur.

Hafa brotið alþjóðalög og traðkað á siðferðislegum gildum

Hann bendir á að einhver fyrirtæki hafi hætt viðskiptum við Rússland, sum þeirra að fyrra bragði og önnur eftir þrýsting og umræðu. Þá eru ákveðin viðskipti ekki heimil vegna þeirra viðskiptaþvingana sem Ísland hefur tekið þátt í að leggja á Rússa.

Nokkuð stór hópur stendur þó eftir sem hefur stundað útflutning á búnaði fyrir rússneskar fiskvinnslur og útgerðir undanfarin ár og virðist ætla að bíða og sjá. „Það er skammtímasjónarmið ef menn þykjast ætla að bíða og sjá og reyna að halda viðskiptum áfram í Rússlandi, það verður ekki hægt,“ segir Ólafur.

„Nú er ég talsmaður þess að við stundum sem opnust og frjálsust viðskipti við sem allra flest ríki en þegar ríki stígur svona skref eins og Rússland gerir, brýtur í rauninni allar reglur og alþjóðalög og traðkar líka á öllum siðferðislegum gildum sem við höfum í hávegum, þá gegnir öðru máli um það. Þá er ósköp einfaldlega enginn annar kostur en að slíta viðskiptunum,“ segir Ólafur.

Alls fær 181 fyrirtæki falleinkunn á lista Yale, þar á meðal þrjú íslensk fyrirtæki.Mynd/Yale School of Management

Þrjú íslensk fyrirtæki fá falleinkunn

Bandaríski háskólinn Yale School of Management birti á dögunum lista yfir fyrirtæki sem höfðu stundað viðskipti við Rússland og flokkuðu þau eftir því hvernig viðskipti þeirra við Rússa væru eftir innrásina.

Þrjú íslensk fyrirtæki fengu falleinkunn á listanum en Hampiðjan starfar enn í Rússlandi, sem og starfsmenn Knarr Maritime. Sæplast fékk einnig falleinkunn þar sem upplýsingar um stöðu viðskipta við Rússland voru ekki opinberar. Þá fengu Marel og Naust Marine lága einkunn þar sem þau hafa frestað aðgerðum í Rússlandi en stunda enn einhver viðskipti.

Ólafur segir mikilvægt að hafa í huga hvaða langtímahagsmunir séu í húfi og að Ísland þurfi að vera á sama stað og önnur lýðræðisríki en nú sé Ísland að ákveðnu leyti eftir öðrum þjóðum. 

„Ísland, hvort sem það er stjórnvöld, atvinnulíf eða almenningur, ber jafn mikla siðferðislega ábyrgð á því að gera allt sem hægt er til að stöðva Rússland í þessum stríðsrekstri og að styðja við bakið á Úkraínumönnum eins og aðrar lýðræðisþjóðir og við eigum ekki að skorast undan þeirri ábyrgð,“ segir Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×