Anna Petryk, sem mætti Breiðabliki í Meistaradeildinni síðasta haust þegar hún var leikmaður Zhytlobud-1, gekk til liðs við Breiðablik í mars eftir að hafa flúið stríðið í heimalandi sínu.
Daglegt líf í Úkraínu fjarri því sem það var vegna innrásar Rússa, og fótboltinn er þar engin undantekning. Blikar höfðu sterka tengingu til Úkraínu eftir riðlakeppnina í haust og brugðust skjótt við þegar í ljós kom að þessi öfluga knattspyrnukona hefði áhuga á að koma til Breiðabliks.
Petryk gekk inn á Kópavogsvöll í gær umvafin úkraínska fánanum til að sýna samstöðu með löndum sínum sem berjast fyrir framtíð landsins gegn innrás Rússa.
Petryk var líka fljót að komast á blað í Bestu-deildinni því hún kom Breiðabliki í 2-0 með marki á átjándu mínútu leiksins.
Hér fyrir neðan má sjá myndirnar sem Blikar settu af henni á samfélagsmiðla þar sem sjá má Önnu með úkraínska fánann.
Anna Petryk er 24 ára gömul, fædd í höfuðborginni Kænugarði en bjó í borginni Maríupol fyrstu sautján árin og spilaði þar sína fyrstu leiki í meistaraflokki. Hún lærði í háskóla í Lviv í vesturhluta Úkraínu áður en hún fór til Kharkiv í austurhlutanum til þess að spila með Zhytlobud-1 Kharkiv, einu besta liði landsins.
Petryk var þar í stóru hlutverki og meðal annars í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust.
Petryk á að baki 20 A-landsleiki fyrir Úkraínu, og einnig fjölda leikja með yngri landsliðum.