Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg á Camp Nou í síðustu viku þar sem Barcelona vann stórsigur, 5-1. Því er afar langsótt að Wolfsburg komist áfram í úrslitaleikinn, ekki síður þegar haft er í huga að Evrópumeistarar Barcelona hafa unnið 45 keppnisleiki í röð:
„Við viljum gera allt sem við getum og við gætum, sérstaklega með stuðningsmennina á bakvið okkur, náð að framkalla kraftaverk,“ sagði þýska landsliðskonan Felicitas Rauch sem leikur með Wolfsburg.
„Andinn í liðinu er þannig að við höfum trú allt til enda. Við ætlum okkur svo sannarlega að vinna,“ sagði Rauch.
Búist er við um það bil 20.000 áhorfendum í Wolfsburg á morgun en metið á heimaleik hjá liðinu er 12.464 manns, frá árinu 2014.

Áhorfendametið verður því slegið með miklum mun þrátt fyrir að fjöldinn sé ekki nálægt þeim 91.648 manns sem mættu á fyrri leikinn á Camp Nou.
Leikur Wolfsburg og Barcelona hefst klukkan 16 á morgun og streymi DAZN frá leiknum verður að finna á Vísi.