Fótbolti

Guðlaugur og félagar endurheimtu toppsætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Schalke eru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild.
Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Schalke eru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild. Twitter/Schalke

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Schalke unnu mikilvægan 2-1 útisigur gegn Sandhausen í þýsku B-deildinni í fótbolta í kvöld. Sigurinn lyfti liðinu á topp deildarinnar.

Guðlaugur hóf leik á varamannabekknum, en kom inn á sem varamaður þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Nokkrum mínútum áður hafði Simon Terodde komið gestunum í Schalke í forystu, en Dennis Diekmeier jafnaði metin fyrir Sandhausen þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum.

Það var þó Simon Terodde sem reyndist hetja gestanna í Schalke þegar hann tryggði liðinu 2-1 sigur með öðru marki sínu í uppbótartíma.

Ekki nóg með það að Schalke skyldi vinna leikinn, heldur töpuðu þeirra helstu andstæðingar í Werder Bremen gegn Holstein Kiel á sama tíma 3-2. Sigur Schalke þýðir því að liðið trónir nú á toppi deildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru eftir og eitt stig í viðbót gæti tryggt þeim sæti í efstu deild á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×