Fótbolti

Bonucci hetja Juventus og Meistaradeildarsæti svo gott sem í höfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leonardo Bonucci skoraði bæði mörk Juventus í dag.
Leonardo Bonucci skoraði bæði mörk Juventus í dag. Jonathan Moscrop/Getty Images

Leonardo Bonucci reyndist hetja Juventus er liðið tók á móti botnliði Venezia í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Varnarmaðurinn skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri.

Bonucci skoraði eina mark fyrri hálfleiksins strax á sjöundu mínútu eftir stoðsendingu frá Matthijs de Ligt og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Mattia Aramu jafnaði metin á 71. mínútu og liðsmenn Venezia sáu jafnvel fyrir sér að liðið gæti náð eins og einu mikilvægu stigi gegn stórveldinu í fallbaráttunni.

Adam var þó ekki lengi í paradís því Leonardo Bonucci kom heimamönnum í Juventus í forystu á nýjan leik þegar hann mokaði boltanum yfir marklínuna eftir klafs í teignum.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og niðurstaðan varð því 2-1 sigur Juventus. Liðið er nú í fjórða sæti með 69 stig eftir 35 leiki og aðeins Roma getur komið í veg fyrir að Juventus leiki í Meistaradeildinni á næsta tímabili, en það verður þó að teljast ólíklegt. Roma er 11 stigum á eftir Juventus og getur mest tekið 12 stig í viðbót.

Venezia situr hins vegar sem fastast á botni deildarinnar með 22 stig. Liðið á þó enn möguleika á að bjarga sér frá falli, en Venezia er sex stigum frá öruggu sæti þegar fjórir leikir eru eftir.

Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×