Innlent

Fjöl­breytt dag­skrá á bar­áttu­degi verka­lýðsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Safnast verður saman á Ingólfstorgi í dag.
Safnast verður saman á Ingólfstorgi í dag. Vísir/Friðrik Þór

Baráttudagur verkalýðsins er í dag og af því tilefni standa verkalýðsfélög landsins fyrir fjölbreyttri dagskrá víða um land.

Í Reykjavík standa BHM, KÍ, BSRB og ASÍ fyrir kröfugöngu þar sem safnast er saman á Hlemmi klukkan 13:00. Lagt verður af stað klukkan 13:30 og munu Lúðrasveit Verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni.

Á Ingólfstorgi fer síðan fram útifundur þar sem Þórhildur Þorkelsdóttir verður fundarstjóri. Þórarinn Eyfjör, formaður Sameyki, heldur ávarp auk Drífu Snædal forseta ASÍ. Þá verða tónlistaratriði þar sem Bubbi, Una Torfa auk lúðrasveitanna koma fram.

Í Hafnarfirði verða baráttutónleikar Hlífar og Starfsmannafélag Hafnarfjarðar haldnir í Bæjarbíói klukkan 15:00. Þar koma fram Sóli Hólm, Bríet og Bjartmar Guðlaugsson.

Verkalýðsfélag Akraness, VR, Félag iðn- og tæknigreina, Sameyki, Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands standa fyrir dagskrá á Akranesi þar sem safnast verður við Þjóðbraut klukkan 14:00. Ræðumaður er Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og SGS.

Á Akureyri verður safnast saman við Alþýðuhúsið klukkan 13:30 og lagt af stað í kröfugöngu klukkan 14:00 þar sem Lúðrasveit Akureyrar mun leika. Finnur Víkingsson, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ halda ræður og í kjölfarið verður skemmtidagskrá og kaffiveitingar.

Á Ísafirði fer hátíðardagskrá fram í Edinborg þar sem Bergþór Pálsson kemur fram og Albert Eiríksson verður með pistil dagsins auk þess sem boðið verður upp á dansatriði.

Í Vestmannaeyjum verður dagurinn haldinn hátíðlegur í AKÓGES með kaffisamsæti og tónleikum Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar ásamt Skólalúðrasveit Vestmannaeyja.

Hátíðardagskrá fer fram í fleiri bæjarfélögum og má sjá upplýsingar inni á vef ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×