Íslenski boltinn

Sjáðu hvernig Ísak hélt upp á afmælið með tveimur mörkum og þremur stigum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hefur skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur heimaleikjum sínum með Breiðabliki.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur heimaleikjum sínum með Breiðabliki. vísir/hulda margrét

Ísak Snær Þorvaldsson átti heldur betur góðan afmælisdag í gær en hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Breiðabliks á FH í 3. umferð Bestu deildarinnar.

Ísak fagnaði 21 árs afmæli sínu í gær og hélt upp á það með því að skora tvö mörk í öðrum heimaleiknum í röð.

Mosfellingurinn skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Breiðabliks á Keflavík í 1. umferð Bestu deildarinnar og endurtók leikinn gegn FH í gær.

Ísak kom Blikum yfir í uppbotartíma fyrri hálfleiks með góðu skoti. Á 71. mínútu kom Kristinn Steindórsson heimamönnum í 2-0 eftir slæm mistök Gunnars Nielsen í marki gestanna. Tveimur mínútum síðar skoraði Ísak sitt annað mark og þriðja mark Breiðabliks með skoti á lofti eftir sendingu Davíðs Ingvarssonar.

Klippa: Breiðablik 3-0 FH

Breiðablik er með níu stig á toppi Bestu deildarinnar og Ísak er markahæstur í deildinni með fjögur mörk. FH er með þrjú stig í 8. sætinu.

Í fyrri leik gærdagsins gerðu ÍBV og Leiknir 1-1 jafntefli á Hásteinsvelli. Andri Rúnar Bjarnason kom Eyjamönnum yfir á 26. mínútu þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið eftir sendingu Guðjóns Péturs Lýðssonar.

Þremur mínútum síðar skoraði Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, sjálfsmark og þar við sat. Bæði Eyjamenn og Leiknismenn eru með eitt stig.

Klippa: ÍBV 1-1 Leiknir

Mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×