Erlent

Í­halds­menn tapa hundruðum sæta í sveitar­stjórnar­kosningum á Eng­landi

Kjartan Kjartansson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Maður yfirgefur kjörstað í sveitarstjórnarskosningunum í London í gær.
Maður yfirgefur kjörstað í sveitarstjórnarskosningunum í London í gær. Vísir/EPA

Breski íhaldsflokkurinn virðist fara illa út úr sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru þar í landi í gær. Sumir frambjóðendur flokksins eru á meðal þeirra sem kenna óvinsældum Boris Johnson forsætisráðherra um tapið.

Flokkurinn hefur til að mynda misst völdin á þýðingarmiklum stöðum í höfuðborginni London og svo virðist sem hann muni missa um 250 sæti á Englandi. Íhaldsmenn töpuðu sæti sínu í Wandsworth í London sem þeir hafa átt öruggt frá árinu 1978.

Talningu atkvæða er ekki lokið þar og talning er hvorki hafin í Skotlandi, Wales né á Norður-Írlandi. Lokatölur verða því ekki ljósar fyrr en síðar í dag eða jafnvel á morgun á sumum stöðum. 

Verkamannaflokkurinn hefur þó ekki riðið sérlega feitum hesti frá kosningunum heldur ef miðað er við fyrstu tölur og aðeins bætt lítillega við sig. Græningjar og Frjálslyndir demókratar hafa aftur á móti sótt í sig veðrið víða um England.

Reiknað var með fylgistapi Íhaldsflokksins fyrir kosningarnar. Framfærslukostnaður fer hækkandi og þá hafa uppljóstranir um endurtekin teiti ráðherra og embættismanna flokksins á meðan strangar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru í gildi vakið reiði almennings. Johnson forsætisráðherra var nýlega sektaður fyrir að brjóta reglur um samkomutakmarkanir.

Engu að síður segir Laura Kuenssberg, stjórnmálaskýrandi breska ríkisútvarpsins BBC, að Íhaldsflokkurinn gjaldi ekkert afhroð þrátt fyrir röð hneykslismála og að hafa verið við völd í meira en áratug.

Sumir flokksmenn eru þó ósáttir við forystuna og Johnson sérstaklega. John Mallinson, oddviti íhaldsmanna í Carlisle, segir Johnson bera mikla ábyrgð á úrslitunum nú og að hann væri slæmur valkostur til að leiða flokkinn í næstu þingkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×